Notaðu Landsbankaappið til að millifæra af reikningum í öðrum bönkum
Nú er hægt að nota Landsbankaappið til að tengjast öðrum bönkum og millifæra út af reikningum þar. Þau sem eiga reikninga í fleiri en einum banka þurfa því ekki að skrá sinn í önnur bankaöpp, því í Landsbankaappinu er bæði hægt að sjá stöðuna á reikningunum og millifæra annað.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Viðskiptavinir eru mjög ánægðir með Landsbankaappið og þróunin á appinu hefur verið hröð. Með því að geta notað Landsbankaappið til að bæði sjá stöðuna og millifæra af greiðslureikningum í öðrum bönkum, verða persónulegu og sameiginlegu fjármálin mun auðveldari og einfaldari. Þessi þjónusta, sem er hvergi í boði nema í Landsbankaappinu, er töluverður tæknilegur áfangi og við ætlum svo sannarlega að halda áfram að vera í fararbroddi í fjártækni á Íslandi.“
Viðskiptavinir þurfa að samþykkja tengingu
Ný löggjöf um greiðsluþjónustu (PSD2) mælir fyrir um að fjármálafyrirtæki skuli opna fyrir aðgang að greiðslureikningum viðskiptavina sinna fyrir þjónustuveitendur sem hafa til þess starfsleyfi. Aðgangurinn er ávallt háður samþykki viðskiptavina.
Í Landsbankaappinu er nú hægt er að millifæra af reikningum í Arion banka og Íslandsbanka og Kvika banki mun bætast í hópinn á næstu dögum. Þegar önnur fjármálafyrirtæki opna fyrir möguleikann á tengingu bætast þau við um leið.
Bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki
Nýjungin er bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki og byggir þjónustan á lausn frá Meniga sem veitir aðgang að greiðslureikningum í öðrum bönkum í gegnum samræmd netskil (API). Til að aðrir bankar og fjártæknifyrirtæki geti tengst Landsbankanum er notast við þjónustu frá kanadíska fjártæknifyrirtækinu Salt Edge.