Fjölbreytt dagskrá á Menningarnótt í Reykjastræti og Austurstræti
Landsbankinn er einn af aðalbakhjörlum Menningarnætur og við tökum sem fyrr virkan þátt í hátíðarhöldunum.
Við bjóðum gestum Menningarnætur að koma í heimsókn í nýtt húsnæði bankans í Reykjastræti 6 og að njóta myndlistar á nýrri sýningu á verkum í eigu bankans í Austurstræti 11.
Barnaskemmtun og tónleikar
Mikið verður um að vera í Reykjastræti 6 en þar verður skemmtun fyrir börnin, karlakór flytur söngperlur og Diljá flytur tónlist.
Dagskrá:
- 15.00 - Bestu lög barnanna. Sylvía Erla og Árni Benedikt hafa gert sjónvarpsþætti fyrir Sjónvarp Símans Premium þar sem þau syngja og dansa með söngelskum börnum. Það ætla þau líka að gera í bankanum á Menningarnótt.
- 16.00 - Karlakórinn Esja fagnar á þessu ári 10 ára starfsafmæli. Kórinn ætlar ekki bara að syngja í bankanum heldur einnig á meðan hlauparar í 10 km hlaupi Reykjavíkurmaraþons hlaupa um Ægissíðuna.
- 17.00 – Diljá Pétursdóttir skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún bar sigur úr býtum í forkeppni Eurovision-söngvakeppninnar og stóð sig síðan með mikilli prýði í úrslitunum í Liverpool.
Myndlistasýning í Austurstræti
Í tilefni af Menningarnótt verður opnuð ný sýning á listaverkum úr safni Landsbankans í útibúi bankans við Austurstræti 11.
- Á Menningarnótt stendur sýningin frá kl. 11.00 – 17.00 en eftir það verður hún opin á afgreiðslutíma útibúsins.
Sýningin nefnist Hringrás og sýningarstjóri er Daría Sól Andrews. Á sýningunni er kannað hvernig áhrif og innblástur þróast með mismunandi miðlum og í meðförum ólíkra kynslóða listafólks. Verkin endurspegla áherslu á ákveðnar listrænar hreyfingar, abstraktlist og geómetríska abstraksjón, hlutbundna og hlutlæga list, grafíska list (bæði ætimyndir og teikningar) og súrrealisma. Hringrás veitir innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafns Landsbankans, þvert á framsetningarmáta og samhengi.
Sýningin Hringrás mun standa yfir þar til útibúið í Austurstræti lokar og færist yfir í nýtt húsnæði bankans við Reykjastræti 6 sem áætlað er að verði í september.
Hönnunarganga um Reykjastræti 6
Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og verkefnastjóri nýbyggingar Landsbankans verður með fjórar leiðsagðar ferðir um Reykjastræti 6. Göngurnar voru auglýstar á Facebook-síðu bankans og eru nú allar fullbókaðar.