Vel heppnað Fjármálamót með stúdentum
Fyrsti fundur í Fjármálamóti, fræðslufundaröð Landsbankans, var haldinn í Stúdentakjallaranum við Háskóla Íslands á miðvikudaginn, í samstarfi við Stúdentaráð HÍ. Á þessu fyrsta Fjármálamóti var farið yfir fjármál ungs fólks, fasteignamarkaðinn og fyrstu kaup.
Hildur Margrét Jóhannsdóttir, sérfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, fjallaði um stöðuna á húsnæðismarkaði og hver staða fyrstu kaupenda væri.
Wentzel Steinarr R. Kamban, fjármálaráðgjafi hjá bankanum, fór yfir sparnað til fyrstu kaupa, hvenær væri best að byrja að spara og hvaða leiðir væru í boði til að spara til fyrstu íbúðakaupa.
Þá hélt Heiður Anna Helgadóttir, þjónustustjóri á Stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta og upplýsingafulltrúi stofnunarinnar, erindi um kosti þess að taka sín fyrstu skref á leigumarkaði á stúdentagörðum.
Fundurinn var vel sóttur og greinilega mikill áhugi á efninu. Fjölmargar spurningar bárust úr sal svo að líflegar umræður spunnust. Landsbankinn þakkar Stúdentaráði Háskóla Íslands fyrir gott samstarf og stúdentum fyrir sýndan áhuga og góðar umræður.
Fjármálamót er ný fræðslufundaröð sem Landsbankinn stendur fyrir í samstarfi við ýmsa hagsmunaaðila og félagasamtök. Til umfjöllunar verða fjármálin á mismunandi tímamótum á lífsleiðinni, við ákveðnar aðstæður og í tengslum við sérstök málefni eins og netöryggi. Stefnt er að því að boðið verði til næsta Fjármálamóts í nýju húsi bankans við Reykjastræti 6.