Landsbankinn gerist aðili að PBAF til að mæla áhrif á líffræðilega fjölbreytni
Landsbankinn hefur gerst aðili að PBAF (Partnership for Biodiversity Accounting Financials) sem eru samtök sem vinna að því að þróa aðferð til að mæla áhrif útlána og eignasafna fjármálafyrirtækja á líffræðilega fjölbreytni. Nú taka 47 fjármálafyrirtæki víða um heim þátt í verkefninu og er Landsbankinn fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til að gerast aðili að því.
PBAF eru systursamtök PCAF (Partnership for Carbon Accounting Financials) sem þróaði aðferðafræði sem gerir fjármálafyrirtækjum kleift að mæla og greina losun gróðurhúsalofttegunda í lána- og eignasöfnum.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Áður en PCAF kom til sögunnar höfðu fjármálafyrirtæki enga leið til að meta losun á gróðurhúsalofttegundum vegna lána og eignasafna með samræmdum hætti, en nú er aðferðafræðin óðum að öðlast alþjóðlega viðurkenningu sem besta leiðin til að meta losunina. Við teljum að aðferðafræðin sem nú er unnið að á vettvangi PBAF muni verða jafn mikilvæg við mat á því hvaða áhrif útlánastarfsemi og eignasöfn fjármálafyrirtækja hefur á líffræðilega fjölbreytni.
Það er öllum mikilvægt að stuðla að góðri umgengni um auðlindir jarðar því þannig tryggjum við velsæld einstaklinga og fyrirtækja til framtíðar. Við bindum miklar vonir við að starfið á vettvangi PBAF leiði til þess að við getum betur séð hvar vandinn er mestur. Þannig getum við greint tækifæri til að stuðla á sem áhrifaríkastan hátt að varðveislu á líffræðilegri fjölbreytni til framtíðar.“
Nánar um PCAF og kolefnisspor bankans
Landsbankinn gerðist aðili að PCAF árið 2019. Fulltrúi bankans tók virkan þátt í að móta og þróa aðferðafræði PCAF en starfið byggði á náinni samvinnu fjármálafyrirtækja og vísindamanna. Kröfur Evrópusambandsins um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja í loftslagsmálum byggja að miklu leyti á aðferðafræði PCAF og við mat á umbreytingar- og loftslagsáhættu er að mestu leyti stuðst við PCAF-gögn um losun frá lána- og eignasafni.
Okkar eigin starfsemi, það er að segja rekstur á skrifstofuhúsnæði, útibúum, tölvukerfum og fleira slíkt er aðeins lítið brot af þeim heildaráhrifum sem starfsemi bankans hefur á umhverfið. Hin raunverulegu áhrif eru vegna útlána og eigna bankans. Hið sama á við um áhrif bankans á líffræðilega fjölbreytni.