Landsbankinn styrkir Bergið headspace í nafni Framúrskarandi fyrirtækja
Líkt og undanfarin ár veitti Landsbankinn styrki til góðs málefnis í nafni allra þeirra fyrirtækja sem hlutu viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki. Að þessu sinni rann styrkurinn, fjórar milljónir króna, til Bergsins headspace.
Alls hlutu 894 fyrirtæki viðurkenningu sem Framúrskarandi fyrirtæki 2022.
Bergið headspace veitir ungu fólki á aldrinum 12-25 ára ráðgjöf og stuðning á þeirra eigin forsendum. Markmið Bergsins er að veita ungu fólki skilyrðislausa og ókeypis geðheilbrigðisþjónustu. Með því að lækka þröskulda og afnema öll skilyrði telja aðstandendur Bergsins líklegra að ungt fólk leiti sér hjálpar fyrr, fái stuðning til að takast á við erfiðar tilfinningar og aðstæður og geti þannig viðhaldið hamingju og virkni til framtíðar. Það sem gerir þjónustu Bergsins sérstaka er fyrst og fremst aðgengi, að ekki þurfi tilvísanir eða skilgreindan vanda til að sækja þjónustu Bergsins. Kjarninn í starfseminni og ráðgjöfinni er að vera til staðar fyrir unga fólkið á þeirra forsendum.