Þrjú ný myndbönd á Iceland Airwaves vef bankans
Við frumsýnum þrjú ný myndbönd á Iceland Airwaves-vef bankans. Frá árinu 2014 höfum við framleitt 38 tónlistarmyndbönd í samstarfi við íslenskt tónlistarfólk sem kemur fram á Iceland Airwaves og alls hafa þessi myndbönd verið spiluð 3,3 milljón sinnum.
Kolbrún Óskarsdóttir gefur út draumkennt rafpopp sem hún semur, framleiðir og syngur sjálf undir listamannsnafninu KUSK. Hún og Hrannar Máni deila stúdíói, vinna náið saman og mynda saman dúóið KUSK x ÓVITI.
Hljómsveitin Superserious er skipuð fjórum vinum úr Garðabænum og var stofnuð árið 2021. Superserious var sigurvegari tónlistarkeppninnar Sykurmolinn sama ár. Hljómsveitin spilar melódískt indírokki og tekur sig að sjálfsögðu afar alvarlega …
Una Torfa hefur skrifað tónlist síðan hún man eftir sér. Það eru mannlegir textar og grípandi laglínur sem einkenna lögin hennar. Hún semur flest sín lög á gítar inni í herberginu sínu, helst með dagbók opna fyrir framan sig.
Öll spila þau á Off Venue tónleikum í Landsbankanum í Austurstræti 11 þann 5. nóvember. Tónleikarnir hefjast kl. 15.00.
Leikstjóri myndbandanna er Baldvin Vernharðsson.
Vinsælasta myndbandið spilað oftar en milljón sinnum
Tilgangurinn með samstarfinu er að gera ungu og upprennandi tónlistarfólki kleift að framleiða myndbönd til að koma tónlist sinni á framfæri en bankinn greiðir allan kostnað vegna þeirra. Við erum mjög stolt og ánægð með þetta verkefni sem við teljum að hafi tekist vel.
Alls hafa 28 listamenn tekið þátt og 38 myndbönd litið dagsins ljós. Myndböndin hafa alls verið spiluð 3,3 milljón sinnum á Youtube. Langvinsælasta myndbandið er með Kælunni Miklu að flytja Næturblóm en það hefur verið verið spilað í meira en 1,1 milljón skipti.