Vörumst netsvik - er netslóðin örugglega rétt?
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fjársvikum sem viðskiptavinir urðu fyrir í sumar miðar vel, eins og fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.
Vegna þessa máls bendum við á að við mælum með að viðskiptavinir fari inn í netbanka Landsbankans í gegnum vef bankans, þ.e. með því að slá inn landsbankinn.is í gluggann sem sýnir netslóðina.
Útbjuggu svikasíður á netinu
Í þessu máli voru settar voru upp svikasíður í nafni Landsbankans og var vefslóðin þannig að við fyrstu sýn mátti villast á raunverulegum vef bankans og svikasíðunum. Dæmi um svikaslóð er t.d. landsbankinnis.co en ekki landsbankinn.is. Í kjölfarið keyptu svikararnir Google-auglýsingu (Google ads) fyrir svikasíðuna. Ef fólk sló inn heiti Landsbankans í leitarvélaglugga Google, þá gat birst hlekkur á Google yfir á svikasíðuna sem sumir smelltu á. Þar var fólk síðan beðið um innskráningarupplýsingar sem svikararnir gátu nýtt sér til að millifæra fjármuni úr netbankanum, þó með tilteknum takmörkunum.
Við mælum eindregið með að viðskiptavinir tengist ávallt netbankanum beint í gegnum vef bankans, með því að slá inn landsbankinn.is. Kjósi fólk að nota leitarvélar er afar mikilvægt að vera viss um að slóðin sé örugglega rétt, og í okkar tilfelli er það landsbankinn.is.
Í þessu máli tókst svikurunum í nokkrum tilfellum að hafa fé af viðskiptavinum. Um leið og bankinn fékk upplýsingar um svikin greip hann til aðgerða sem komu í veg fyrir frekari svik, auk þess sem lögreglu var gert viðvart.
Netsvik færast sífellt í vöxt og mikilvægt er að huga að netöryggi og vera vakandi gagnvart hættunum. Við hvetjum þig til að kynna þér netöryggismál á landsbankinn.is/netoryggi.