Óskum Alvotech til hamingju með skráningu á First North á Íslandi
Í kjölfar skráningar hlutabréfa Alvotech á Nasdaq hlutabréfamarkaðinn í New York í síðustu viku hefur félagið nú einnig verið skráð á Nasdaq First North Iceland vaxtarmarkaðinn.
Alvotech er nú eina hlutafélagið sem er bæði skráð á hlutabréfamarkað á Íslandi og í Bandaríkjunum.
Í tilkynningu frá Alvotech kemur fram að félagið vinni að því að auka aðgengi sjúklinga að ódýrari líftæknilyfjum með framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja sem geti dregið úr kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfa um allan heim. Líftæknilyfjahliðstæður eru lyf með sömu klínísku virkni og upprunaleg líftæknilyf. Fram kemur að Alvotech vinni að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Til að ná sem mestri útbreiðslu lyfja fyrirtækisins um allan heim hafi Alvotech gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á mörkuðum í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína og víðar í Asíu, Suður-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum. Hjá félaginu starfa um 800 manns.
Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var viðurkenndur ráðgjafi félagsins við skráninguna á Nasdaq First North Iceland vaxtarmarkaðinn og þakkar Alvotech kærlega fyrir ánægjulegt samstarf.