Árborg gefur út fyrsta sjálfbærniskuldabréfið
Útgáfan byggir á sjálfbærniumgjörð Árborgar sem sveitarfélagið vann í samvinnu við Landsbankann. Bankinn hafði einnig umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna, sem og töku þeirra til viðskipta í kauphöll Nasdaq 21. júní sl.
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Eignastýringar og miðlunar Landsbankans segir: „Samstarfið við sveitarfélagið Árborg gekk afar vel. Góð kjör fengust í útboðinu og mikil umframeftirspurn eftir bréfunum er til marks um ríkan áhuga fjárfesta á sjálfbærum fjárfestingarkostum. Útgáfan markar tímamót, því þetta er í fyrsta skipti sem sjálfbærniskuldabréf er gefið út á Íslandi. Þá var þetta í fyrsta skipti sem banki sér um ferlið frá upphafi til enda, frá því að veita ráðgjöf við gerð sjálfbærniumgjarðar, til sölu skuldabréfa og töku þeirra til viðskipta.“
Sjálfbærniskuldabréf eru ólík grænum skuldabréfum að því leyti að þau má gefa út til að fjármagna verkefni sem hafa félagslegan ávinning í för með sér. Skuldabréfin eru gefin út til að fjármagna græn og/eða félagsleg verkefni í samræmi við sjálfbærniumgjörð Árborgar sem byggir á áætlunum sveitarfélagsins í umhverfisvænni og félagslegri uppbyggingu. Hún samræmist alþjóðlegum viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði (ICMA) og hefur hlotið óháða vottun frá Sustainalytics, sem er leiðandi vottunaraðili í sjálfbærum fjármálum á heimsvísu.
Skuldabréfin, að fjárhæð 1,4 milljarðar króna, voru seld í lokuðu útboði á ávöxtunarkröfunni 1,35%. Heildareftirspurn í útboðinu var rúmlega 3,1 milljarður króna.