Nýr fjárfestingarsjóður með sjálfbærni að leiðarljósi
Sjóðurinn leggur áherslu á ábyrgar fjárfestingar þar sem miðað er við frammistöðu í umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum fyrirtækja (UFS) þegar ákvarðanir um fjárfestingar eru teknar. Sjóðurinn fjárfestir í innlendum og erlendum sjóðum, hlutabréfum og skuldabréfum, ásamt peningamarkaðsgerningum og innlánum.
Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa, segir: „Landsbréf eru eitt stærsta sjóða- og eignastýringarfyrirtæki landsins og hlutverk þess er fyrst og fremst að hámarka ávöxtun sjóðfélaga, miðað við fyrirfram skilgreinda fjárfestingarstefnu. Sjálfbærni kemur til skoðunar við allar fjárfestingarákvarðanir hjá okkur en með nýja sjóðnum, sem mun eingöngu fjárfesta í fjármálagerningum sem eru gefnir út af aðilum sem skara fram úr á sviði ábyrgra fjárfestinga, leggjum við enn meiri áherslu á þennan málaflokk. Þegar ákvarðanir um fjárfestingar eru teknar er stuðst við UFS-greiningar og skulu útgefendur standast lágmarksviðmið sjóðsins á sviði sjálfbærni. Með því að gera slíkar kröfur geta viðskiptavinir Landsbankans og Landsbréfa tekið betur upplýstar ákvarðanir um sjálfbærnimál fyrirtækja og beint fjármagni í fjárfestingar sem sannarlega stuðla að sjálfbærni, án þess að slaka á kröfum um góða ávöxtun.“
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Eignastýringar og miðlunar Landsbankans, segir: „Við í Landsbankanum tökum sjálfbærnimál alvarlega og erum stolt af því að samkvæmt nýju UFS-áhættumati alþjóðlega greiningarfyrirtækisins Sustainalytics, sem tekur mið af því hvernig við vinnum í sjálfbærnimálum, erum við í 1. sæti af 423 bönkum sem fyrirtækið hefur mælt í Evrópu. Með nýja sjóðnum, Eignadreifing sjálfbær, geta fjárfestar og almenningur tekið beinan þátt í þessari vegferð með okkur. Fjárfestar hafa í auknum mæli tileinkað sér aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga, enda hafa rannsóknir sýnt fylgni milli góðs árangurs fyrirtækja í sjálfbærnimálum og arðsemi í rekstri til lengri tíma. Við munum halda áfram að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Það er Landsbanki nýrra tíma!“