Samfélagsskýrsla Landsbankans aðgengileg á netinu
Samfélagsskýrsla Landsbankans fyrir árið 2019 er nú aðgengileg á vef bankans. Í skýrslunni er fjallað ítarlega um samfélagsábyrgð bankans og áhrif starfseminnar á umhverfi og samfélag. Landsbankinn gefur árlega út samfélagsskýrslu þar sem viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) er fylgt. Reynt er að veita innsýn í það sem vel er gert og einnig það sem betur má fara.
Í skýrslunni er fjallað um jafnréttismál í Landsbankanum, ábyrgar fjárfestingar, innleiðingu þriggja heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í starfsemina og víðtæk samfélagsverkefni sem bankinn tekur þátt í, m.a. alþjóðlegt verkefni sem miðar að því að þróa sérstakan loftslagsmæli fyrir fjármálafyrirtæki.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Ljóst er að efnahagsleg- og samfélagsleg áhrif Covid-19 faraldursins verða mikil. Á tímum sem þessum er meginverkefni bankans að þjóna og styðja við viðskiptavini sína. Um leið er mikilvægt að huga að framtíðinni. Samfélagsskýrsla Landsbankans sem kemur út í dag fjallar um hvernig unnið var að samfélagsábyrgð hjá bankanum á árinu 2019. Í skýrslunni má lesa um þau fjölmörgu verkefni sem bankinn vinnur að í tengslum við samfélagslega ábyrgð, allt frá því að tryggja jafnrétti á vinnustað, til innleiðingar á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga og til víðtækra samfélagsverkefna sem bankinn tekur þátt í. Samfélagsábyrgð verður æ stærri hluti af rekstri fyrirtækja og vill Landsbankinn halda áfram að vera leiðandi á því sviði. Á þessu ári verður mikilvægasta verkefni bankans að veita trausta og góða fjármálaþjónustu og styðja við bakið á viðskiptavinum í þeim áskorunum sem þeir standa frammi fyrir.“
Landsbankinn er virkur þátttakandi í starfi UN Global Compact, verkefni Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI), er stofnaðili að samtökum um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi (IcelandSIF) og Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Alþjóðlega greiningarfyrirtækið Sustainalytics gerði UFS-áhættumat (umhverfis- og félagslegir þættir og stjórnarhættir) á bankanum og var Landsbankinn í 6. sæti af þeim 376 bönkum sem Sustainalytics mældi í Evrópu.
Í september 2019 skrifaði Landsbankinn undir viðmið Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi og hefur í kjölfarið sett sér markmið sem kynnt eru í skýrslunni. Markmiðin snúa að því að meta losunarumfang lána- og eignasafns bankans, þróa græn útlán og halda áfram að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti.