Landsbankinn efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni
Landsbankinn mældist efstur í Íslensku ánægjuvoginni 2019 hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu. Þetta er ánægjuleg viðurkenning á þeirri stefnu Landsbankans að bjóða framúrskarandi bankaþjónustu, hvort sem hún er veitt með stafrænum hætti eða með persónulegri þjónustu í útibúum bankans.
Íslenska ánægjuvogin er félag í eigu Stjórnvísi og er framkvæmd í höndum Zenter rannsókna.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Við erum afar ánægð og stolt yfir því að Landsbankinn skuli mælast efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni. Okkar starf miðar að því að veita viðskiptavinum úrvals þjónustu og tryggja um leið traustan rekstur til framtíðar. Um leið og við setjum mikinn kraft í stafræna framþróun leggjum við áherslu á að efla og þróa þá þjónustu sem er í boði í útibúum bankans. Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar eru enn ein staðfestingin á að við séum á réttri leið og eru okkur hvatning til að gera enn betur. Landsbankinn mun áfram kappkosta að bjóða framúrskarandi bankaþjónustu um allt land, hvar og hvenær sem er.“