Gjaldeyrisviðskipti Landsbankans í takt við FX Global Code
FX Global Code reglurnar byggja á niðurstöðum vinnuhóps Alþjóðagreiðslubankans í Basel. Vinnuhópurinn var skipaður fulltrúum frá helstu seðlabönkum heims ásamt fulltrúum markaðsaðila frá 16 löndum sem tóku þátt í þróun og innleiðingu reglnanna. Á alþjóðlegum vettvangi eru reglurnar taldar mikilvægur liður í að auka traust og stuðla að skilvirkum gjaldeyrismarkaði. Frá því að reglurnar voru samþykktar árið 2017 hefur mikill fjöldi seðlabanka, viðskiptabanka og annarra markaðsaðila lýst því yfir að þeir hagi gjaldeyrisviðskiptum sínum í samræmi við reglurnar.
Í yfirlýsingu Landsbankans kemur fram að bankinn hafi kynnt sér reglurnar og viðmiðin sem í þeim felast og hafi gert viðeigandi ráðstafanir til að aðlaga starfsemi sína að þeim.
Seðlabanki Íslands undirritaði sambærilega yfirlýsingu í nóvember 2018 og hvatti í kjölfarið mótaðila sína á Íslandi til að kynna sér reglurnar og gera eftir atvikum nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla viðmið þeirra. Landsbankinn varð fyrsti markaðsaðilinn á Íslandi, fyrir utan Seðlabankann, til að undirrita slíka yfirlýsingu.