Dufl sigraði í Gullegginu
Viðskiptahugmyndin Dufl sigraði í Gullegginu 2019, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups, en Dufl hefur þróað bættan staðsetningarbúnað á sjó. Verðlaunaafhendingin fór fram við við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík 25. október. Dufl hlaut einnig sérverðlaun í flokki „Vöru“ (e. product).
1. sæti Dufl.
Önnur sérverðlaun hlutu eftirtaldir:
- Teymið GreenBytes í flokki „Grænna lausna“ (e. green) sem bjóða upp á hugbúnaðarlausn sem nýtir sölugögn með vitvélatækni (e. machine learning) til að minnka matarsóun og auka framlegð veitingastaða.
- Örmælir í flokki „Heilsu“ (e. health). Lausn þeirra snýst um að mæla snertilaust mjög lítið vökvamagn fyrir rannsóknir í heilbrigðisvísindum.
- Statum, sem hannar gagnvirkan dómsal í sýndarveruleika til að undirbúa þolendur kynferðisofbeldis að fara fyrir dóm, hlaut verðlaun í flokki „stafrænna lausna“ (e. digital).
Frá verðlaunaafhendingunni í Háskóla Reykjavíkur.
10 stigahæstu viðskiptahugmyndirnar
Í ár bárust 135 hugmyndir auk þess sem 20 einstaklingar skráðu sig til leiks án hugmyndar og áttu þess kost að taka þátt í verkefnum annarra. Á vef Gulleggsins má lesa nánar um 10 stigahæstu hugmyndirnar.
Um Gulleggið
Gulleggið hóf göngu sína árið 2008 og var þá fyrsti formlegi vettvangurinn sem veitti aðstoð við að þróa áfram hugmyndir sem spruttu upp innan háskólanna. Gulleggið er enn mikilvægur stuðningur fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref en keppnin veitir þátttakendum einstakt tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri, fá endurgjöf og gera úr þeim raunhæfar og markvissar áætlanir sem miða að árangursríkri stofnun fyrirtækja. Landsbankinn hefur verið einn helsti bakhjarl Gulleggsins frá upphafi.