Uppfærð áætlun Landsbankans um fjármögnun á markaði árið 2017
Landsbankinn hefur birt uppfærða áætlun um fjármögnun á markaði fyrir árið 2017.
Stefnt er að mánaðarlegum útboðum sértryggðra skuldabréfa sem tilkynnt verða í fréttaveitu Nasdaq Iceland eigi síðar en með dagsfyrirvara. Áætlað er að gefa út sértryggð skuldabréf fyrir 35-40 ma.kr. á árinu.
Víxlaútboð munu að jafnaði fara fram einu sinni í mánuði þar sem nýir flokkar auk viðbótar við þegar útgefna flokka verða boðnir til sölu. Heildarfjárhæð víxlaútgáfu á árinu mun ráðast af markaðsaðstæðum.
Auk þess að stefna að endurfjármögnun veðtryggðra erlendra skulda bankans á árinu munu aðrir fjármögnunarkostir á innlendum markaði verða skoðaðir með það að markmiði að breikka fjármögnunargrunn bankans.
Landsbankinn áskilur sér rétt til þess að gera breytingar á útgáfuáætlun ársins 2017 án fyrirvara eða sérstakrar tilkynningar þar um.