Hvað þarf að hafa í huga við fyrstu fasteignakaup?
Góður undirbúningur er nauðsynlegur. Á netinu eru ýmsar upplýsingar en það er líka gott að leita ráða hjá fjölskyldu og vinum, hjá fasteignasölum og ráðgjöfum banka eða annarra fjármálastofnanna. Ef þú þekkir einhvern sem þú getur treyst og sem hefur reynslu af fasteignakaupum getur verið gott að fá viðkomandi til að fylgjast með öllu ferlinu.
Hvað má íbúðin kosta?
Þú þarft að vita hvað þú ræður við að borga mikið af íbúðaláninu á mánuði. Fyrsta skrefið er því oft að reikna út greiðslugetu, þ.e. hvað þú getur greitt mánaðarlega af íbúðalánum miðað við tekjur. Hér á vefnum getur þú áætlað greiðslugetu þína á fljótlegan hátt án þess að ljúka formlegu greiðslumati. Einnig er hægt að sækja um greiðslumat sem gefur nákvæmari mynd af greiðslugetu þinni og því hversu hátt lán þú getur tekið.
Það er samt ekki endilega góð hugmynd að nýta allt svigrúmið sem greiðslumatið gefur þér. Þú þarft í það minnsta að gera ráð fyrir útgjöldum vegna viðhalds, hita og rafmagns. Þú þarft líka að hafa svigrúm til að takast á við tímabundið tekjufall eða óvænt útgjöld. Þú vilt líka geta leyft þér fleira en að kaupa mat og borga af lánum.
Hvað þarf ég að eiga mikið?
Það er misjafnt hvað lánastofnarnir lána fyrir stórum hluta kaupverðs. Landsbankinn lánar fyrir allt að 85% af kaupverði íbúðarhúsnæðis en þú þarft að eiga fyrir 15% af kaupverðinu. Hlutdeildarlán Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar geta nýst þeim sem ekki eiga fyrir svo stórum hluta kaupverðsins. Nánari upplýsingar um hlutdeildarlánin má nálgast á island.is.
Viðbótarlífeyrissparnaður kemur sér vel
Ef þú ert að kaupa þína fyrstu íbúð áttu rétt á að nota viðbótarlífeyrissparnaðinn þinn við kaupin. Útborgun á viðbótarlífeyrissparnaði til kaupa á fyrstu íbúð er skattfrjáls. Þær tekjur sem þú leggur inn á viðbótarlífeyrissparnaðinn, auk mótframlags vinnuveitanda, bera því engan skatt ef þú notar sparnaðinn í þessum tilgangi. Það er því alveg ljóst að langhagstæðasta leiðin til að safna sér fyrir fyrstu eign er að skrá sig í viðbótarlífeyrissparnað.
Gott lánshæfi er líka mikilvægt
Í greiðslumatinu er líka litið til þess hvort þú sért með gott lánshæfi. Ef þú ert í skilum með önnur lán og borgar reikninga á réttum tíma hefur það góð áhrif á lánshæfið. Hófleg skuldsetning hefur líka jákvæð áhrif á matið, sem og sparnaður.
Hvernig lán á ég að taka?
Það getur verið snúið að ákveða hvernig lán er best að taka. Við mælum með að þú farir vel og vandlega yfir mismunandi möguleika. Í þessum efnum er gott að leita ráðgjafar hjá bönkum eða öðrum lánveitendum.
Segja má að um tvær lánategundir sé að ræða, verðtryggð lán og óverðtryggð lán. Síðan er hægt að velja hvort þau beri fasta eða breytilega vexti og hversu langur lánstíminn á að vera. Þú getur líka valið blandaða leið, þ.e. skipt lánsfjárhæðinni á milli ólíkra lánstegunda. Það er mjög einfalt að bera saman ólíka kosti í reiknivélum sem flestir lánveitendur bjóða upp á.
Eftir því sem lánstíminn er styttri eru mánaðarlegar greiðslur hærri. Styttri lánstími veldur því líka að þú eignast íbúðina þína hraðar (sem skiptir t.d. máli þegar þú vilt stækka við þig) og heildargreiðslan af láninu verður lægri.
Óverðtryggt eða verðtryggt?
Í sjálfu sér er ekki hægt að svara því hvort hagstæðara sé að taka verðtryggt eða óverðtryggt lán fyrr en að lánstíma liðnum, því misjafnt er milli ára hvort lánsformið er hagstæðara. Hið sama má í raun segja um fasta vexti eða breytilega vexti. Fjallað er um muninn á óverðtryggðum og verðtryggðum lánum í annarri fræðslugrein hér á vefnum. Hér skiptir miklu máli að kynna sér málið vel og leita ráðgjafar.
Gerðu ráð fyrir aukakostnaði
Fasteignakaupum fylgir oftast ýmiskonar kostnaður. Það þarf að mála og dytta að hér að þar; það þarf stóla, borð, þvottavél, kæliskáp og kannski eitthvað fleira. Þegar þetta er tekið saman safnast fljótt upp nokkuð há fjárhæð sem þarf að gera ráð fyrir.
Lánsloforð liðkar fyrir
Þegar þú hefur lokið greiðslumati og jafnvel fengið lánsloforð frá banka eða öðrum lánveitanda getur þú gert tilboð í fasteign án fyrirvara um fjármögnun. Það getur liðkað fyrir viðskiptunum og bætir mögulega samningsstöðu þína sem kaupanda.
Fyrirvari um ástandsskoðun getur borgað sig
Þegar þú gerir tilboð í fasteign mælum við með að þú gerir fyrirvara um ástandsskoðun. Í ástandsskoðun er kannað hvort fasteignin búi mögulega yfir göllum sem þér – eða seljandanum – hafa yfirsést. Svona gallar geta verið mjög alvarlegir og kostnaður getur lent á þér.
Greiða kaupverðið sem næst afhendingu
Við uppsetningu kauptilboðs sem unnið er með fasteignasalanum er gott að huga að því hvernig peningum og lánum er ráðstafað við kaupin. Ef það er mögulegt er best að haga því þannig að þú greiðir fyrir íbúðina sem næst afhendingu. Fasteignasalinn sér síðan yfirleitt um þinglýsingu og frágang skjala sem tengjast viðskiptunum og innheimtir fyrir það þóknun. Eftir þinglýsingu eru lánaskjöl send aftur til bankans. Þegar búið er að ráðstafa lánunum til seljandans eða samkvæmt fyrirmælum sem koma fram í kaupskjölum þá verða þau sýnileg í netbankanum. Frá og með þessum degi byrjar lánið að safna vöxtum.
Fylgstu með lánakjörum
Við mælum með að þú fylgist vel með og kannir reglulega hvort þú getir mögulega fengið betri vaxtakjör. Það er einfalt að endurfjármagna og „tímakaupið“ sem þú nærð þér í við að endurfjármagna á betri kjörum getur verið mjög hátt. Mundu því eftir lánunum, það getur margborgað sig!
Hvað er að gerast á fasteignamarkaði?
Hagfræðideild Landsbankans fylgist náið með þróuninni á fasteignamarkaði og birtir reglulega greiningar á markaðnum, stöðu og horfum. Fylgstu með hér á vefnum.
Höfundur er sérfræðingur í Viðskiptalausnum einstaklinga hjá Landsbankanum.