Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Hagstofan launavísitöluna fyrir janúar. Iceland Seafood birtir ársuppgjör.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð Peningastefnunefndar.
- Á fimmtudag Hagstofan niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn sinni. Brim, Kvika banki og VÍS birta ársuppgjör.
- Á föstudag birtir Hagstofan febrúarmælingu vísitölu neysluverðs. Við spáum því að vísitalan hækki um 0,8% milli mánaða og að verðbólgan hækki úr 5,7% í 5,8%. Auk þess birtir Hagstofan vöru- og þjónustujöfnuð fyrir 4. ársfjórðung þennan dag.
Mynd vikunnar
Tölur um innlán og yfirdráttarlán heimilanna benda til þess að fjárhagsleg staða þeirra hafi batnað nokkuð á síðustu árum. Þannig hafa innlán heimilanna aukist um 54% að raunvirði frá árslokum 2013, þar af um 9% frá lokum febrúar 2020 rétt áður en Covid-19 heimsfaraldurinn skall á. Nokkra athygli vekur að innlán jukust í gegnum þessar efnahagsþrengingar en innlán drógust verulega saman í kjölfar falls viðskiptabankanna haustið 2008. Yfirdráttarlán hafa dregist nokkuð saman síðustu ár og eru nú 27% lægri að raunvirði en í lok árs 2013.
Efnahagsmál
- Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,7% milli mánaða í janúar. Þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem mikil hækkun á íbúðaverði mælist en í desember hækkaði vísitalan um1,8%. Árshækkun íbúðarhúsnæðis alls mælist 20,3% í janúar og hefur ekki mælst hærri síðan sumarið 2017.
- Velta innlendra greiðslukorta jókst um 10% að raunvirði milli ára í janúar, en til samanburðar var vöxturinn 14% milli ára í desember og 20% í nóvember. Helsta breytingin sem nú sést á neyslumynstri Íslendinga er að neyslan færist meira út fyrir landsteinana og er aukin velta í janúar nær alfarið tilkomin vegna aukinnar neyslu hjá erlendum söluaðilum.
- Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,1% milli mánaða í janúar. Árshækkun leiguverðs er 5,8%, sem er 14,5 prósentustigum lægra en árshækkun íbúðaverðs. Heildarfjöldi leigusamninga á landinu öllu var 531 í janúar.
- Seðlabankinn birti: Gjaldeyrisforða og tengda liði í janúar og tryggingarfélög í desember.
- Hagstofan birti: Afla í janúar, vöru- og þjónustujöfnuð í nóvember og skammtímahagvísa ferðaþjónustu í febrúar.
- Landsvirkjun birti ársuppgjör.
Fjármálamarkaðir
Eik, Eimskip, Reitir, Síminn og Sýn birtu ársuppgjör í síðustu viku.
Arion banki, Sjóvá og Reginn birtu ársskýrslur fyrir 2021.
Landsbankinn lauk útboði sértryggðra skuldabréfa, Lánasjóður sveitarfélaga lauk skuldabréfaútboði (viðbótarútgáfa) og Lánamál ríkisins luku útboði ríkisbréfa.