Eftir að Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferlið um mitt ár 2021 færðist áhugi fólks yfir í óverðtryggð lán með föstum vöxtum þar sem væntingar voru um enn hærri vexti. Á allra síðustu mánuðum má svo sjá aukningu í töku verðtryggðra lána að nýju, þar sem greiðslubyrði slíkra lána er lægri. Þau henta því mörgum lántökum betur í hærra vaxtaumhverfi, sérstaklega fyrstu kaupendum.
Ef litið er til útistandandi íbúðalána alls má sjá að 56% allra útistandandi íbúðalána eru óverðtryggð (nýjustu gögn miðast við júní). Hlutfallið var um 28% áður en heimsfaraldurinn skall á og um 15% um mitt ár 2016. Heimsfaraldurinn og þeir lágu vextir sem þá buðust hafa því breytt verulega samsetningu íbúðalána þar sem hlutfallslega meira er til staðar af óverðtryggðum lánum. Það er spurning hvað gerist þegar vextir hækka. Nú má sjá fyrstu merki þess að heimilin auki töku verðtryggðra lána að nýju og má búast við framhaldi á þeirri þróun á næstu misserum.
Útlán innlánastofnana aukast milli ára
Hrein ný útlán, þ.e. útlán innlánsstofnana að frádregnum upp- og umframgreiðslum, jukust um 8% á milli ára á föstu verðlagi í júlí. Hrein ný útlán námu 57,1 ma.kr. en hrein ný útlán innlánastofnana hafa mælst heldur há það sem af er þessu ári og met var t.a.m. slegið í maí.
Hrein ný útlán innlánastofnana nema tæplega 350 mö.kr. það sem af er árinu. Útlán innlánastofnana á undanförnum mánuðum eru enn frekari staðfesting þess að mikill kraftur er í hagkerfinu en sem dæmi var met slegið í hreinum nýjum útlánum í maí, þegar þau námu tæplega 70 mö.kr.
Fyrirtækin taka fram úr heimilunum
Rúmur helmingur hreinna nýrra útlána fer nú til atvinnufyrirtækja. Af þessum 57,1 ma.kr. fóru 29,5 ma.kr. til atvinnufyrirtækja, eða 52% af nettó nýjum útlánum, og 37% til heimila. Þetta er mikil breyting frá fyrri árum. Útlán til heimilanna að frádregnum upp- og umframgreiðslum námu 21,2 mö.kr. í júlí í ár en til samanburðar námu þau 39,4 mö.kr. í júlí árið 2020 sem er talsverð breyting.
Stærstur hluti útlána til fyrirtækja eru til þjónustugeirans. Það sem af er ári hafa ný útlán að frádregnum uppgreiðslum numið 83 mö.kr. til þjónustufyrirtækja en til samanburðar voru hrein ný útlán til þeirra allt árið í fyrra einungis 3 ma.kr. Af þessum 83 mö.kr. hafa fasteignafélög verið skráð fyrir 47% nýrra útlána sem af er árinu.