Spáum varkárni í peningastefnu og óbreyttum vöxtum
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 2. október. Við spáum því að nefndin haldi stýrivöxtum óbreyttum, jafnvel þótt verðbólga hafi hjaðnað meira en búist var við í september og horfur séu á frekari hjöðnun næstu mánuði.
Peningastefnunefnd hefur haldið stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% á síðustu sex fundum. Þegar nefndin kom síðast saman, þann 21. ágúst, hafði verðbólga aukist frá því á maífundinum. Í ágústyfirlýsingunni var lögð áhersla á of mikla undirliggjandi verðbólgu, væntingar yfir markmiði og spennu í þjóðarbúinu. Þá kom fram að nefndin teldi aðhaldsstigið „hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið“ en að þrálát verðbólga og kraftur í innlendri eftirspurn kölluðu á „varkárni“.
Verðbólga hefur hjaðnað verulega frá síðasta fundi
Frá síðasta fundi hefur verðbólga hjaðnað verulega, úr 6,3% í 5,4%. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu hafa því hækkað um 0,9 prósentustig á milli funda nefndarinnar. Hafa ber í huga að hjöðnunin undanfarið skýrist að hluta til af niðurfellingu opinberra gjalda, þ.e. einstaka skólagjalda og gjalda vegna skólamáltíða. Þótt slík niðurfelling komi til lækkunar á vísitölu neysluverðs gerir hún það að verkum að almenningur hefur meira fé milli handanna og kann því að vera þensluhvetjandi til lengri tíma. Verðbólguhjöðnunin er því ekki að öllu leyti til marks um minnkandi eftirspurnarþrýsting í hagkerfinu, og við teljum líklegt að nefndin líti til þess. Við teljum að einnig spili inn í ýmsir aðrir hagvísar sem benda til þó nokkurrar eftirspurnar í hagkerfinu og að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að enn einu sinni sé ráðlegt að halda vöxtum óbreyttum.
Síhækkandi raunstýrivextir
Raunstýrivextir hafa verið jákvæðir á flesta mælikvarða frá því um mitt síðasta ár. Út frá liðinni verðbólgu eru raunstýrivextir nú 3,85% og hafa hækkað um 0,9% frá síðasta fundi nefndarinnar. Þannig hefur aðhald peningastefnunnar smám saman aukist, þótt stýrivextir hafi verið óbreyttir.
Raunstýrivexti má meðal annars meta út frá verðbólguvæntingum. Verðbólguvæntingar hafa verið yfir verðbólgumarkmiði frá árinu 2021 en virðast nú smám saman á réttri leið, að minnsta kosti væntingar til skemmri tíma. Væntingarnar má til dæmis lesa út úr verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði, sem er munurinn á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa og verðtryggðra. Gera má ráð fyrir að verðbólgutala septembermánaðar, sem Hagstofan birti í morgun, slái verulega á verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði.
Kraftur í íbúðamarkaði þrátt fyrir háa vexti
Þrátt fyrir hátt vaxtastig hefur vísitala íbúðaverðs hækkað með hverjum mánuðinum frá því í febrúar sl. Í ágúst hækkaði vísitalan um 1,4% og árshækkunin, sem hefur verið á hraðri uppleið, var 10,8%. Árshækkun raunverðs íbúða, þ.e. vísitala íbúðaverðs á móti vísitölu neysluverðs án húsnæðis, mældist 6,5% í ágúst og hefur rokið hratt upp úr neikvæðum gildum frá því á síðasta ári. Kaupsamningum hefur líka fjölgað á milli ára og því eru ýmis merki um þó nokkuð líflegan íbúðamarkað. Þótt vissulega beri að hafa í huga að stór hluti íbúðakaupa um þessar mundir skýrist af eftirspurn Grindvíkinga virðist vaxtastigið ekki hafa fryst eftirspurn á íbúðamarkaði.
Undirliggjandi verðbólguþrýstingur hefur minnkað verulega á allra síðustu mánuðum, ef marka má kjarnavísitölur verðbólgunnar sem segja til um verðbólguþróun að undanskildum sveiflukenndustu undirliðunum. Ársbreyting allra þriggja kjarnavísitalna verðbólgunnar minnkaði um á bilinu 0,4-0,6 prósentustig á milli mánaða í september en sú kjarnavísitala sem undanskilur reiknaða húsaleigu er sem fyrr mun lægri en hinar og mældist 2,9% í september.
Samdráttur á fyrri árshelmingi skýrist langhelst af birgðabreytingum
Þótt hátt vaxtastig hafi slegið á þenslu í þjóðarbúinu má enn greina merkilega mikinn eftirspurnarþrýsting víða í hagkerfinu. Hagkerfið dróst örlítið saman á milli ára á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt nýjustu þjóðhagsreikningum Hagstofunnar, og samtals um 1,9% á fyrri helmingi ársins. Á sama tíma er nú ljóst að hagvöxtur var meiri í fyrra en áður var talið og samdráttur er einnig minni á fyrsta ársfjórðungi. Umsvif í hagkerfinu eru því meiri en áður var talið þótt landsframleiðsla dragist saman. Þá vekur athygli að þrátt fyrir hátt vaxtastig hefur kortavelta landsmanna aukist á milli ára að raunvirði í hverjum einasta mánuði það sem af er þessu ári.
Þó virðist hafa slaknað á spennu á vinnumarkaði og atvinnuleysi er örlítið meira en á sama tíma í fyrra. Launavísitalan hefur hækkað mun minna á þessu ári en því síðasta, bæði vegna mun hóflegri kjarasamninga en einnig hefur líklega hægt á launaskriði.
Í takt við framsýna leiðsögn, fyrri skref og nýjustu hagtölur að bíða átekta
Þrátt fyrir ríflega verðbólguhjöðnun og síhækkandi raunstýrivexti teljum við ólíklegt að peningastefnunefnd þyki forsendur hafa skapast fyrir vaxtalækkun. Nefndin hefur stigið varlega til jarðar síðustu mánuði og haldið vöxtum óbreyttum í heilt ár. Í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar er sérstaklega talað um „varkárni“ og greinilegt að Seðlabankanum er mikið í mun að hætta ekki á að missa aftur stjórn á verðbólguvæntingum. Þá mátti greina harðan tón í orðum seðlabankastjóra á kynningu nýjustu fjármálastöðugleikaskýrslunnar á miðvikudag sl. Hann sagði að verðbólgan væri „að fara niður“ og að henni yrði „þrýst niður á hækkun raunvaxta“.
Kröftug kortavelta bendir til þess að heimilin hafi enn svigrúm til neyslu og síaukin innlán heimila gefa til kynna að neyslan geti aukist áfram. Þá er enn eftirspurnarþrýstingur á íbúðamarkaði og ekki farið að bera á verulega auknu atvinnuleysi. Hjöðnun verðbólgunnar skýrist að verulegu leyti af gjaldaniðurfellingu, sem þarf að varast að túlka sem merki um minnkandi verðþrýsting. Því teljum við að peningastefnunefnd telji áfram þörf á þéttu peningalegu aðhaldi og sýni varkárni þegar kemur að vaxtalækkunum.
Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar
Dags. | Lagt til | Atkvæði með | Atkvæði móti | Kosið annað | Niðurstaða | Meginvextir |
9. febrúar 2022 | +0,75% | ÁJ, RS, GJ, GZ, KÓ | +0,75% | 2,75% | ||
4. maí 2022 | +1,00% | ÁJ, RS, GJ, GZ, HS | +1,00% | 3,75% | ||
22. júní 2022 | +1,00% | ÁJ, RS, GJ, GZ, HS | GZ (+1,25%) | +1,00% | 4,75% | |
24. ágúst 2022 | +0,75% | ÁJ, RS, GJ, GZ, HS | GZ (+1,00%) | +0,75% | 5,50% | |
5. október 2022 | +0,25% | ÁJ, RS, GJ, GZ, HS | +0,25% | 5,75% | ||
23. nóvember 2022 | +0,25% | ÁJ, RS, GJ, GZ, HS | GZ (+0,50%) | +0,25% | 6,00% | |
8. feb. 2023 | +0,50% | ÁJ, RS, GJ, GZ, HS | HS (+0,75%) | +0,50% | 6,50% | |
22. mars 2023 |
+1,00% | ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS | +1,00% |
7,50% | ||
24. maí 2023 | +1,25% | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (+1,00%) | +1,25% | 8,75% | |
23. ágúst 2023 | +0,50% | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (+0,25%) | +0,50% | 9,25% | |
4. október 2023 | óbr. | ÁJ, RS, GJ, ÁP | HS (+0,25%) | ÁÓP (+0,25%) | óbr. | 9,25% |
22. nóvember 2023 | óbr. | ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS | óbr. | 9,25% | ||
7. febrúar 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
20. mars 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
8. maí 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁP, HS | AS (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
21. ágúst 2024 | óbr. | ÁJ, RS, TB, ÁP, HS | óbr. | 9,25% | ||
2. október 2024 | ||||||
20. nóvember 2024 |
AS: Arnór Sighvatsson, ÁJ: Ásgeir Jónsson, ÁP: Ásgerður Ósk Pétursdóttir, GJ: Gunnar Jakobsson, GZ: Gylfi Zoëga, HS: Herdís Steingrímsdóttir, KÓ: Katrín Ólafsdóttir, RS: Rannveig Sigurðardóttir, TB: Tómas Brynjólfsson. Heimild: Seðlabanki Íslands