Spáum áfram óbreyttum vöxtum
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 21. ágúst. Við spáum því að nefndin haldi stýrivöxtum óbreyttum og í ljósi nýjustu verðbólgumælingar verði tónninn í yfirlýsingunni nú hugsanlega harðari en í þeirri síðustu.
Hæg hjöðnun verðbólgu aðalástæðan
Peningastefnunefnd hefur haldið stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% á síðustu fimm fundum. Fyrsta slíka ákvörðunin í október grundvallaðist á mikilli óvissu um horfur í efnahagslífinu almennt. Síðar tóku jarðhræringar á Reykjanesskaga og óvissan sem þeim tengdist að spila inn í auk þess sem nefndin vildi sjá hvaða áhrif síðustu kjarasamningar hefðu. Nú teljum við að ákvörðun nefndarinnar byggi einfaldlega á því hversu hægt verðbólgan hjaðnar. Síðustu yfirlýsingu mátti túlka á þann veg að hægt yrði að lækka vexti um leið og verðbólga og verðbólguvæntingar færu hjaðnandi. Þar kom fram að nefndin teldi auknar líkur á að núverandi aðhaldsstig væri hæfilegt til þess að koma verðbólgu niður í markmið innan ásættanlegs tíma.
Verðbólga hefur aukist frá síðasta fundi
Þegar peningastefnunefnd kom síðast saman, þann 8. maí sl., stóð verðbólga í 6,0%. Þá hafði hún hjaðnað nokkuð hressilega mánuðina á undan en vextir haldist óbreyttir. Síðan hefur verðbólga aftur á móti aukist lítillega á ný og var 6,3% í júlí. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu hafa því lækkað um 0,3 prósentustig. Ef verðbólgan hefði haldið áfram að hjaðna duglega í sumar hefði hugsanlega mátt gera ráð fyrir lítilsháttar vaxtalækkun, en í ljósi nýjustu vendinga í vísitölu neysluverðs teljum við nánast útilokað að nefndin hefji vaxtalækkunarferli í næstu viku.
Þrátt fyrir hátt vaxtastig hefur vísitala íbúðaverðs hækkað stöðugt síðustu mánuði. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs var 9,1% í júní og hefur ekki verið svo mikil síðan í febrúar 2023. Árshækkun raunverðs íbúða, þ.e. vísitala íbúðaverðs á móti vísitölu neysluverðs án húsnæðis, mældist 5,0% í júní og hækkaði úr 4,0% í maí. Árshækkun raunverðs hefur ekki verið meiri síðan í janúar 2023. Kaupsamningum hefur líka fjölgað verulega á milli ára og því ýmis merki um þó nokkuð líflegan íbúðamarkað. Þótt vissulega beri að hafa í huga að stór hluti íbúðakaupa um þessar mundir skýrist af eftirspurn Grindvíkinga fer því fjarri að vaxtastigið hafi fryst eftirspurn á íbúðamarkaði. Hugsanlega hefur aðhaldið hins vegar hægt á íbúðauppbyggingu og þar með átt þátt í að skapa verðþrýsting.
Undirliggjandi verðbólguþrýstingur virðist hafa aukist lítillega í júlí, ef marka má kjarnavísitölur verðbólgunnar sem segja til um verðbólguþróun að undanskildum þeim undirliðum sem að jafnaði sveiflast mest. Ársbreyting allra þriggja kjarnavísitalna verðbólgunnar jókst á milli mánaða en sú kjarnavísitala sem undanskilur reiknaða húsaleigu er sem fyrr mun lægri en hinar. Á síðustu fundum hefur peningastefnunefnd haft lækkandi ársbreytingu kjarnavísitalnanna til grundvallar en nú hafa þær hækkað á ný.
Væntingar enn yfir markmiði
Þótt verðbólga hafi aukist lítillega í sumar hafa verðbólguvæntingar þróast í hagstæða átt á flesta mælikvarða. Ein vísbending sem við höfum um þróun verðbólguvæntinga frá síðasta fundi peningastefnunefndar er verðbólguálag á skuldabréfamarkaði.
Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði er munurinn á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa og verðtryggðra, sem gefur vísbendingu um spá markaðarins um verðbólgu fram í tímann. Daginn áður en peningastefnunefnd kom síðast saman í maí stóðu væntingar til þess að verðbólga tveimur árum síðar yrði 4,8% (í maí 2026). Nú standa væntingar til 4,5% verðbólgu eftir tvö ár (í ágúst 2026). Skuldabréfamarkaðurinn spáir 4,1% verðbólgu eftir fimm ár og gerir ráð fyrir nokkuð tregbreytanlegri verðbólgu þar á eftir, ef marka má fimm-ár-eftir-fimm-ár álagið sem stendur nú í 4%. Þannig virðist markaðurinn hafa litla trú á að verðbólga komist niður í markmið í náinni framtíð þótt hún sé talin mjakast áfram í rétta átt.
Væntingar um verðbólgu í framtíðinni auka verðbólguþrýsting og torvelda peningastefnunni að koma böndum á verðbólgu. Þegar launafólk gerir ráð fyrir hækkandi verðlagi er það líklegra til að krefjast launahækkana í því skyni að verja kaupmáttinn. Að gefnum hærri launakostnaði eru fyrirtæki líklegri til að hækka verð á vörum og þjónustu og kröftug eftirspurn gerir þeim einnig betur kleift að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag. Eftir því sem verðbólga er þrálátari eykst hættan á því að kjölfesta verðbólguvæntinga losni sem veldur því að væntingar sveiflast auðveldar upp á við með aukinni verðbólgu.
Verðbólguvæntingar geta því haft mikið að segja um verðbólguhorfur og peningastefnunefnd er mikið í mun að koma böndum á þær. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu hafa verið jákvæðir frá því í kringum mitt síðasta ár og sennilega hefði nefndin viljað sjá þá slá hraðar á væntingar.
Samdráttur á fyrsta ársfjórðungi skýrist af birgðabreytingum
Þótt hátt vaxtastig hafi borið þó nokkurn árangur í að slá á þenslu í þjóðarbúinu má enn greina eftirspurnarþrýsting víða í hagkerfinu. Nýjustu þjóðhagsreikningar ná yfir fyrsta ársfjórðung þessa árs og samkvæmt þeim dróst hagkerfið saman um 4% á milli ára. Samdráttinn má nær allan rekja til minni birgðasöfnunar en á sama tíma ári áður, sem skýrist nær alfarið af loðnubresti. Einkaneysla jókst um 0,2% á milli ára á fyrsta fjórðungi, samneysla um 1,2% og fjármunamyndun um 2,4%.
Þótt atvinnuleysi sé aðeins örlítið meira en á sama tíma í fyrra má greina merki um að smám saman hafi slaknað á spennu á vinnumarkaði. Launavísitalan hefur hækkað mun minna á þessu ári en því síðasta, bæði vegna mun hóflegri kjarasamninga en einnig hefur líklega hægt á launaskriði. Þá má nefna að samkvæmt nýjustu könnun Seðlabankans og Gallup á eftirspurn fyrirtækja eftir starfsfólki telja sífellt færri fyrirtæki skorta starfsfólk á vinnumarkaðnum.
Teljum langmestar líkur á óbreyttu vaxtastigi
Peningastefnunefnd hefur tekið varfærin skref síðustu mánuði og haldið vöxtum óbreyttum í heilt ár. Fyrst nefndinni þótti auknar líkur á því á síðasta fundi að taumhaldið væri hæfilegt er erfitt að færa rök fyrir vaxtalækkun í næstu viku, enda hefur verðbólga aukist lítillega frá því síðast. Þótt vissulega hafi hagvaxtarhorfur einnig versnað í ljósi mikils samdráttar á fyrsta ársfjórðungi ber að hafa í huga að samdrátturinn skýrðist af birgðabreytingum en ekki samdrætti í hagstærðum á borð við einkaneyslu og fjárfestingu. Þá er enn eftirspurnarþrýstingur á íbúðamarkaði og ekki farið að bera á verulega auknu atvinnuleysi. Því teljum við að peningastefnunefnd telji áfram þörf á þéttu peningalegu aðhaldi og sjái ekki ástæðu til að óttast ofkólnun í hagkerfinu að svo stöddu.
Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar
Dags. | Lagt til | Atkvæði með | Atkvæði móti | Kosið annað | Niðurstaða | Meginvextir |
2022 | ||||||
9. febrúar 2022 | +0,75% | allir | +0,75% | 2,75% | ||
4. maí 2022 | +1,00% | allir | +1,00% | 3,75% | ||
22. júní 2022 | +1,00% | allir | GZ (+1,25%) | +1,00% | 4,75% | |
24. ágúst 2022 | +0,75% | allir | GZ (+1,00%) | +0,75% | 5,50% | |
5. október 2022 | +0,25% | allir | +0,25% | 5,75% | ||
23. nóvember 2022 | +0,25% | allir | GZ (+0,50%) | +0,25% | 6,00% | |
2023 | ||||||
8. feb. 2023 | +0,50% | allir | HS (+0,75%) | +0,50% | 6,50% | |
22. mars 2023 |
+1,00% | allir | +1,00% |
7,50% | ||
24. maí 2023 | +1,25% | ÁJ, RS, ÁÓP, HS | GJ (+1,00%) | +1,25% | 8,75% | |
23. ágúst 2023 | +0,50% | ÁJ, RS, ÁÓP, HS | GJ (+0,25%) | +0,50% | 9,25% | |
4. október 2023 | óbr. | ÁJ, RS, GJ, ÁÓP | HS (+0,25%) | ÁÓP (+0,25%) | óbr. | 9,25% |
22. nóvember 2023 | óbr. | allir | óbr. | 9,25% | ||
2024 | ||||||
7. febrúar 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁÓP, HS | GJ (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
20. mars 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁÓP, HS | GJ (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
8. maí 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁÓP, HS | AS (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
21. ágúst 2024 | ||||||
2. október 2024 | ||||||
20. nóvember 2024 |