Olíu­verð einn helsti drif­kraft­ur verð­bólgu á síð­ustu 50 árum

Hrávöruverð hefur almennt farið lækkandi á síðustu mánuðum. Það mun styðja við hjöðnun verðbólgunnar í heiminum en hún hefur ekki mælst meiri á Vesturlöndum í nokkra áratugi.
Olíuvinnsla
12. september 2022 - Greiningardeild

Það er misjafnt milli landa hvort verðbólga sé búin að ná hámarki. Mörg lönd eru ekki komin fyrir vind og mun há verðbólga enn eiga eftir að hækka meðan verðbólgu í sumum öðrum ríkjum hefur líklegast náð hámarki. Við teljum að hið síðarnefnda eigi við um Ísland.

Núverandi verðbólgutímar skýrast af mikilli hækkun á hrávöruverði

Verðbólga hefur ekki mælst meiri í mörgum helstu viðskiptalöndum Íslands í nokkra áratugi. Í sumum tilfellum þarf að fara 40 ár aftur í tímann til að finna meiri verðbólgu. Ástæðan fyrir þessari miklu verðbólgu má einfaldlega finna í mikilli hækkun á verði hrávöru. Sú hækkun á sér síðan einnig skýringar í framboðskorti, vegna þess að framleiðslukeðjur slitnuðu víða í faraldrinum, viðbrögðum í peningamálum og ríkisfjármálum vegna faraldursins og innrás Rússa í Úkraínu. Á allra síðustu mánuðum hefur hrávöruverð án eldsneytis farið lækkandi en er þó enn um 30% hærra en það var áður en faraldurinn braust út. Verð á hráolíu hefur einnig lækkað frá hæstu gildum eftir faraldur en er enn á 75% hærra verði en fyrir faraldur.

Verðbólgubálið sem kviknaði 1974 átti sér rætur í margföldun á olíuverði

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mikil hækkun á hrávöru elur af sér verðbólguvanda. Reyndar er það svo að sé litið 50 ár aftur í tímann sést að alltaf þegar verðbólga hefur orðið að alvöru vandamáli á Vesturlöndum hefur meginskýringin ávallt verið miklar verðhækkanir á hrávöru. Sú hrávara sem þó langmestum áhrifum hefur valdið er olía. 

Árið 1974 ferfaldaðist olíuverð frá fyrra ári og má rekja þá hækkun til þess að samtök olíuframleiðsluríkja, OPEC, bönnuðu aðildarríkjum OPEC að selja olíu til Norður-Ameríku, Japans, Bretlands og Hollands. Ástæðan var vegna þess að þessi svæði höfðu stutt við Ísrael í Yom Kippur-stríðinu í október 1973. Þessi hækkun á olíuverði jók verulega verðbólgu á vesturlöndum og þurfti að beita mikilli hörku, í formi hás vaxtastigs, til þess að ná verðbólgunni niður aftur. Sem dæmi fóru stýrivextir í Bandaríkjunum upp í 20% á níunda áratugnum en 1982 tókst að ná verðbólgunni þar niður í tveggja stafa tölu. Árið 1985 var verðbólga 2,8% að meðaltali í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Upp úr 1990 má segja að tekist hafi að hafa hemil verðbólgunni á Vesturlöndum þangað til nú.

Olían hefur alltaf verið eini valkosturinn

Af hverju er það svo að olíuverð umfram aðrar hrávörur hefur valdið svona miklum verðbólguvanda í fortíðinni? Skýringarnar eru fyrst og fremst tvær.

Í fyrsta lagi má segja að olía sé blóð efnahagslífs heimsins. Langstærsti hluti samgangna byggja á olíueldsneyti og allur flutningur á vörum milli landa væri ekki mögulegur ef ekki væri fyrir olíu. Án framboðs af olíu myndu hjól efnahagslífs heimsins stöðvast. Hingað til hefur ekki verið nein staðkvæmdarvara fyrir olíu. Með staðkvæmdarvöru er átt við aðra vöru sem hægt er að nota að einhverju leyti í staðinn. Það hefur því ekki verið hægt að grípa til þess ráðs að nota aðra eldsneytisgjafa til þess að halda hjólum efnahagslífsins gangandi.  Þó nýting á orkugjöfum öðrum en olíu hefur færst í aukana, t.d. þegar kemur að einkabílnum, er það ekki nóg til þess að draga úr olíuþörfinni.

Þessu er öðruvísi farið með flestar aðrar hrávörur sem hafa allar einhvers konar staðkvæmdarvöru. Ef bananar hækkuðu í verði langt umfram verð á öðrum ávöxtum gæti fólk dregið úr neyslu sinni á þeim og keypt appelsínur í staðinn. Áhrifa mikillar verðhækkunar á banönum á verðbólgu væru því takmörkuð þar sem fólk myndi breyta neyslusamsetningu sinni og skipta banönum út fyrir annars konar matvæli. Þessu er ekki farið með sama hætti hvað olíu varðar þannig að þegar verð á olíu hefur hækkað mikið hefur keypt magn lítið dregist saman og neyslusamsetningin lítið breyst. Áhrif verðhækkunar koma því að fullu fram í verðbólgu.

Olíuverðið hefur einnig áhrif á flutningskostnað

Í öðru lagi hefur olía ekki einungis bein áhrif á dæluverð á eldsneyti og þannig á verðbólgu heldur hækkar hún einnig flutningskostnað á vörum sem hefur þar með einnig áhrif til aukinnar verðbólgu. Olíuverð er því í raun eina hrávaran sem hefur einnig áhrif á verðbólgu í gegnum flutningskostnað.

Við sjáum því að verðbólga er erfið viðureignar þegar olíuverðshækkanir eru annars vegar. Hækkun á olíuverði vegna takmarkaðs framboðs er staða sem erfitt er að eiga við og má segja að heimurinn allur taki á sig skell sem mun taka mislangan tíma að vinda ofan af.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
30. jan. 2025
Spáum vaxtalækkun um 0,5 prósentustig
Við spáum 0,5 prósentustiga vaxtalækkun í næstu viku. Verðbólga mældist 4,6% í janúar. Hún hjaðnaði í takt við spá okkar og hefur þokast niður um 0,5 prósentustig frá síðustu vaxtaákvörðun. Hægt hefur á íbúðaverðshækkunum og verðbólguvæntingar virðast stöðugri en áður. Laun hafa hækkað mun minna en áður og vinnumarkaður hefur leitað í eðlilegra horf.  
Fasteignir
30. jan. 2025
Verðbólga hjaðnar áfram
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,27% á milli mánaða í janúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 4,8% í 4,6%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði og verði 3,9% í apríl.
Íbúðahús
27. jan. 2025
Vikubyrjun 27. janúar 2025
Í vikunni birtast verðbólgutölur fyrir janúar. Við eigum von á að verðbólga hjaðni og mælist 4,6%. Í síðustu viku birtist vísitala íbúðaverðs fyrir desember sem sýndi lækkun upp á 0,6% á milli mánaða. Vísitala leiguverðs sýndi einnig lækkun á milli mánaða, um 0,9%.
Bakarí
24. jan. 2025
Stöðugri vinnumarkaður og minna skrið launahækkana
Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 6,6% árið 2024. Á síðustu mánuðum hefur hægt verulega á launahækkunum, bæði vegna minni kjarasamningsbundinna hækkana en síðustu ár og minna launaskriðs. Kaupmáttur hefur því sem næst staðið í stað og óhætt að segja að staðan á vinnumarkaði styðji nú mun betur við verðstöðugleika en áður.
20. jan. 2025
Vikubyrjun 20. janúar 2025
Kortaveltutölur sem komu í síðustu viku voru nokkuð sterkar og sýndu að kortavelta heimilanna jókst nokkuð á milli ára í desember. Það voru tvö uppgjör í síðustu viku, Hagar og Ölgerðin, en fjárhagsár þessa tveggja félaga er, ólíkt öðrum félögum í kauphöllin, ekki hið sama og almanaksárið. Í vikunni fram undan fáum við vísitölur íbúðaverðs og leiguverðs frá HMS.
20. jan. 2025
Kortavelta landsmanna í sókn allt síðasta ár
Kortavelta landsmanna var alls 4,2% meiri á síðasta ári en árið 2023 og jókst milli ára alla mánuði ársins, miðað við fast verðlag og gengi. Telja má líklegt að Seðlabankinn fylgist vel með neyslustiginu í vaxtalækkunarferlinu og reyni að koma í veg fyrir að uppsafnaðar innistæður hrúgist út í neyslu. Neysla ferðamanna hér á landi mældist aðeins 1% meiri í fyrra en árið áður sé miðað við fast verðlag.
Pund, Dalur og Evra
17. jan. 2025
Krónan styrktist á síðasta ári
Krónan styrktist á móti evru en veiktist aðeins á móti Bandaríkjadal á árinu 2024. Árið var nokkuð rólegt á millibankamarkaði með gjaldeyri þar sem velta dróst saman og minna var um flökt.
Ský
13. jan. 2025
Vikubyrjun 13. janúar 2025
Atvinnuleysi var að meðaltali 3,5% árið 2024, líkt og við spáðum í október. Komur erlendra ferðamanna til Íslands á árinu voru lítillega fleiri en við bjuggumst við, eða tæplega 2,3 milljónir, og desembermánuður var sá fjölmennasti frá upphafi. Í síðustu viku gáfum við út verðbólguspá og gerum ráð fyrir að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,6% í janúar.
Fataverslun
9. jan. 2025
Spáum 4,6% verðbólgu í janúar
Við spáum því að vísitala neysluverðs lækki um 0,32% á milli mánaða í janúar og að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,6%. Við búumst við áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,7% í apríl.
6. jan. 2025
Vikubyrjun 6. janúar 2025
Í vikunni birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í desember og birtar verða tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum. Einnig fara fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir mælinguna fimmtudaginn 30. janúar.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur