Neysla Íslendinga í útlöndum eykst verulega

Seðlabanki Íslands birti á dögunum gögn um veltu innlendra greiðslukorta í september. Samanlagt jókst kortavelta um 5% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 67,7 mö.kr. og dróst saman um rúm 4% milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam 15,4 mö.kr. og jókst um 85% milli ára miðað við fast gengi.
Á síðustu mánuðum hefur vöxturinn í kortaveltu að mestu leyti verið tilkominn vegna aukningar í kortaveltu erlendis þar sem Íslendingar eru nú farnir að ferðast til útlanda í auknum mæli. Þetta er þó fyrsti mánuðurinn þar sem vöxturinn er alfarið tilkominn vegna aukningar erlendis frá. Innanlands mælist samdráttur í neyslu Íslendinga í fyrsta sinn síðan í apríl 2020.
Hagfræðideild gaf nýverið út þjóðhags- og verðbólguspá til ársins 2024 þar sem gert er ráð fyrir því að einkaneysla aukist um 5% í ár, 4,5% á næsta ári og um 3% næstu tvö árin þar á eftir. Spáin gengur út frá því að heimilin muni ganga á uppsafnaðan sparnað sem varð til í samkomutakmörkunum vegna faraldursins og er því að miklu leyti um að ræða tilfærslu á neyslu milli ára.
Lesa Hagsjána í heild









