Neysla erlendra ferðamanna helst ekki í hendur við fjölgun þeirra

Brottfarir erlendra ferðamanna voru um 156 þúsund í febrúar og því töluvert fleiri en í sama mánuði árið áður, þegar talan var 137 þúsund. Aðeins einu sinni hafa fleiri ferðamenn komið í febrúarmánuði, eða á metárinu 2018. Áhrif jarðhræringanna á Reykjanesskaga virðist því ekki hafa haft teljandi áhrif á fjölda þeirra ferðamanna sem hingað koma.
Erlend kortavelta eykst ekki í takt við fjölda ferðamanna
Síðustu þrjá mánuði virðast ferðamenn vera að eyða minna í ferðum sínum hér en áður. Í desember og janúar síðastliðnum dróst kortavelta saman á milli ára á föstu gengi og þó ferðamönnum hafi fjölgað um 14% á milli ára í febrúarmánuði, jókst erlend kortavelta á föstu gengi aðeins um 3,1%. Neysla á hvern ferðamann heldur því áfram að vera töluvert minni nú en fyrir ári.
Gistinóttum fækkaði um 10% á milli ára í janúar
Nýjustu tölur um skráðar gistinætur erlendra ferðamanna eru fyrir janúar. Skráðum gistinóttum fækkaði um rúmlega 10% á milli ára, þó ferðamönnum hafi fjölgað um rúmlega 8%. Það er því ljóst að hver ferðamaður sem hingað kemur gistir mun skemur en áður, sem helst í hendur við minni kortaveltu.
Áhrif jarðhræringanna á Reykjanesskaga virðist ekki hafa haft teljandi áhrif á fjölda þeirra ferðamanna sem hingað koma. Þó aðeins hafi hægst á taktinum í janúar hefur fjöldinn aftur náð sér á strik í febrúar. Breyting virðist þó hafa orðið á neyslumynstri ferðamanna þar sem þeir gista skemur og eyða þar af leiðandi minna. Hvort það sé afleiðing jarðhræringanna á Reykjanesinu er erfitt að segja. Einhverjir ferðamannastaðir þurftu að skerða þjónustu sína í nálægð við eldsumbrotin og það gæti mögulega skýrt stöðuna. Önnur skýring gæti verið sú að fólk sé búið að svala mesta ferðaþorstanum í kjölfar Covid-faraldursins. Sem fyrr er þó varasamt að draga of sterkar ályktanir út frá þróun örfárra mánaða.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








