Losun frá atvinnulífi á Íslandi minnkaði um 14% 2019 og 20% 2020. Gjaldþrot WOW air og fækkun ferðamanna átti hlut að máli árið 2019 og svo brast faraldurinn á 2020. Losun heimila minnkaði um 4% 2019 og svo um 12% á árinu 2020.
Samanburður milli sex fyrstu mánaða hvers árs sýnir þróunina nær í tíma. Heildarlosun frá hagkerfinu á fyrri hluta árs var nær óbreytt milli 2021 og 2022, losun frá atvinnulífi jókst um 0,3% og losun heimila minnkaði um 4,4%.
Stærstur hluti losunar frá heimilum er vegna flutninga. Skráningu rafmagnsbíla heimila tók að fjölga nokkuð á seinni helmingi ársins 2021 og hefur sú þróun haldið áfram sem gæti skýrt minni losun heimila.
Mismunandi þróun meðal atvinnugreina
Fjórar greinar hafa losað um og yfir 80% af heildarlosun atvinnulífsins síðustu ár. Þetta eru landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar, framleiðsla málma, flutningar á sjó og flutningar með flugi. Þróunin í þessum greinum hefur verið ærið mismunandi á síðustu árum.
Mikill stöðugleiki hefur ríkt í losun tveggja fyrstnefndu greinanna síðustu ár. Losun frá landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum var þó 28% meiri á fyrstu 6 mánuðum í ár en var 2017. Talan fyrir fyrri hluta 2022 er þó úr takti við árin á undan og kann að breytast. Losun við framleiðslu málma var svipuð á fyrri hluta árs 2022 og var á sama tíma 2017.
Losun frá flugi jókst töluvert frá 2016 til 2018 í takt við mikla fjölgun ferðamanna hingað til lands. Losunin minnkaði svo verulega 2019 og 2020. Losun frá flugi á árinu 2021 var 76% minni en árið 2016. Sé litið á samanburð fyrstu sex mánaða hvers árs má hins vegar sjá að losun frá flugi hefur aukist verulega, eða rúmlega fjórfaldast á milli áranna 2021 og 2022. Ferðaþjónustan tók ekki almennilega við sér fyrr en í maí á þessu ári þannig að búast má við að losunartölurnar frá flugi fari að nálgast það sem áður var.
Losun frá sjóflutningum minnkaði eilítið á árunum 2018-2020 en jókst svo aftur töluvert 2021. Sé svo litið til fyrstu 6 mánaða áranna 2021 og 2022 virðist sem losun sé að minnka í þeirri grein.
Í þessum tölum Hagstofunnar er litið til losunar frá rekstri íslenskra aðila hvar sem hann á sér stað í heiminum og er notuð sama skilgreining og í þjóðhagsreikningum.
Svipuð staða fyrir heiminn allan
Losun gróðurhúsalofttegunda minnkaði um 4,8% í heiminum milli 2019 og 2020 samkvæmt tölum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þá stóðu vonir margra til þess að það væri upphafið að nýjum tímum með sífelldri minnkun losunar. Nú sýna tölur að áframhaldandi minnkun var ekki raunin þar sem losunin jókst um 7,1% í fyrra og náði aftur því stigi sem hún var á áður en faraldurinn brast á. Helstu ástæðu aukningar er að finna í iðnaðar- og orkuframleiðslu á meðan aukningin hjá heimilum og í flutningum er enn ekki mikil. Aukningin virðist halda áfram þar sem losun var 3,1% meiri á 1. ársfjórðungi 2022 miðað við sama fjórðung árið áður.
Nýjar og gjörbreyttar aðstæður varðandi orkuframleiðslu- og notkun auka ekki bjartsýni um að draga fari verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum. Stríðið í Úkraínu, lokun á kaupum á jarðgasi frá Rússlandi og aukin framleiðsla orku með jarðefnaeldsneyti sem mengar meira en gasið hafa breytt aðstæðum mikið og snögglega í þá átt að heimurinn verður háður mikilli notkun jarðefnaeldsneytis lengur en margir óskuðu eftir.