Íslenski hlutabréfamarkaðurinn lækkaði um 9,9% í maí og var það töluvert meiri lækkun en á hlutabréfamörkuðum í helstu viðskiptalöndunum. Öll félögin á aðallista íslensku Kauphallarinnar lækkuðu í verði. Eftir að hafa náð ákveðnu lágmarki í kringum stýrivaxtahækkun í Bandaríkjunum í byrjun maí hækkuðu allir hlutabréfamarkaðir helstu viðskiptalanda fram að maílokum. Íslenski markaðurinn hélt hins vegar áfram að lækka til loka mánaðarins.
Lækkunin á félögunum á OMX-markaðnum í Kauphöllinni í maí lá á nokkuð víðu bili, eða 2,6-20,3%. Mest var lækkunin á hlutabréfum Icelandair sem lækkuðu um rúman fimmtung. Erfitt er að greina eitthvað ákveðið mynstur hvað varðar hvernig félög voru að lækka í verði og virðist sem lækkunin hafi endurspeglað almennan titring meðal fjárfesta. Sjávarútvegsfélögin tvö, Brim og Síldarvinnslan, voru í hópi þeirra félaga sem lækkuðu einna minnst.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Íslenski hlutabréfamarkaðurinn lækkaði verulega í maí