Hagsjá: Íbúðaverð lækkaði milli mánaða í nóvember
Samantekt
Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands lækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,3% milli október og nóvember. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,3% en verð á sérbýli stóð í stað. Ekki hefur mælst lækkun á íbúðaverði milli mánaða síðan í febrúar á þessu ári.
Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 2,6% og verð á sérbýli um 1,5%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs í nóvember var því 2,4% sem er 1,2 prósentustigi minna en í október. Árshækkun hefur ekki mælst lægri síðan í mars 2011 og var, til samanburðar, 5,9% í nóvember í fyrra. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis mældist einnig 2,4% í nóvember og stendur raunverð fasteigna því í stað horft 12 mánuði aftur í tímann.
Haustið var nokkuð viðburðaríkt á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu eftir afar tíðindalítið sumar. Fjöldi viðskipta á haustmánuðum (september-nóvember) var 40% meiri en á sumarmánuðunum (júní-ágúst) og 14% meiri en á haustmánuðum fyrir ári síðan. Alla jafna bendir slíkt til þess að spenna sé að aukast sem að óbreyttu veldur þrýstingi á verðlag, en líkt og nýjustu gögn Þjóðskrár benda til eru verðhækkanir afar hóflegar og markaðurinn því nokkuð stöðugur.