Á þriðja ársfjórðungi voru 33,8% allra kaupenda íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu að kaupa sína fyrstu íbúð og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Fjöldi fyrstu kaupenda var 983 talsins og dregst örlítið saman frá síðustu ársfjórðungum, en met var slegið á fyrsta fjórðungi þessa árs þegar alls 1.354 einstaklingar keyptu sína fyrstu fasteign ýmist einir eða með öðrum. Nokkuð áberandi aukning sást á fjölda og hlutfalli fyrstu kaupenda þegar heimsfaraldurinn skall á, enda lækkuðu vextir á sama tíma og sparnaður margra og kaupmáttur jókst.
Samhliða hlutfallslegri fjölgun fyrstu kaupenda hefur meðalaldur þeirra lækkað. Á öðrum ársfjórðungi í fyrra, þegar heimsfaraldurinn skall á, fór meðalaldurinn niður í 29 ár og hafði ekki mælst jafn lágur síðan á fjórða ársfjórðungi 2006. Meðalaldurinn hefur haldist lágur allt undangengið ár og var 29,2 ár nú á þriðja ársfjórðungi þessa árs.
Talsverð fylgni er til staðar milli aldurs fyrstu kaupenda og stærðar þeirrar íbúða sem þeir kaupa, sem kemur ekki á óvart. Samhliða því sem aldur fyrstu kaupenda hefur farið lækkandi hefur meðalstærð íbúða sem þeir kaupa einnig minnkað. Á undangengnu ári var meðalstærð íbúða fyrstu kaupenda 94 fermetrar sem er um 38 fermetrum minna en meðalstærð íbúða í öðrum viðskiptum.
Lesa Hagsjána í heild:









