Erlend kortavelta í júní aldrei verið meiri
Frá áramótum hafa um 636.000 erlendir farþegar farið frá Íslandi. Enn er nokkuð langt í land að ná þeim fjölda brottfara sem var fyrir faraldurinn en brottfarir voru um 900.000 talsins á sama tímabili árið 2019, um 264 þúsund fleiri en í ár. Sá munur skýrist þó helst á fyrstu mánuðum ársins en munurinn á milli mánaða 2022 og 2019 hefur minnkað statt og stöðugt. T.a.m. í janúar á þessu ári voru ferðir erlendra ferðamanna 51% færri miðað við sama mánuð árið 2019 en í júní er þessi munur hins vegar orðinn tæp 10%.
Velta erlendra greiðslukorta hér á landi var 28,3 ma.kr. í júní að nafnvirði , sem samsvarar um 160 þúsund krónum á hvern ferðamann, en erlend kortavelta hefur aldrei mælst jafn há í júnímánuði . Áður hafði kortavelta ferðamanna mælst hæst í júnímánuði 2018 en þá var veltan rúmir 25,5 milljarðar.
Svisslendingar eru eyðsluglaðasta þjóðin en hver Svisslendingur eyddi að meðaltali um 213 þúsund krónum á Íslandi í nýliðnum júnímánuði. Bandaríkjamenn eru hins vegar lang fyrirferðamestir en kortavelta ferðamanna frá Bandaríkjunum var tæp 39% af allri kortaveltu ferðamanna hérlendis í júní. Bandaríkjamenn voru einnig ábyrgir fyrir flestum brottförum í júní, sem kemur ekki á óvart þar sem Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennasta þjóðernið í júnímánuði í um áratug. Brottfarir Bandaríkjamanna voru rúm 30% af heildinni í nýliðnum júnímánuði, á eftir þeim koma Þjóðverjar með rúm 12% og þriðja fjölmennasta þjóðin sem heimsótti landið voru Frakkar sem telja um 6% af heildar brottförum frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði.