Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 2,2% milli maí og júní. Fjölbýli hækkaði um 2,6%, en sérbýli 0,8%. Á síðustu mánuðum hefur sérbýli hækkað á bilinu 2-4% milli mánaða og er hækkunin á sérbýli því mun hófstilltari nú. Hækkunin á fjölbýli er aftur á móti nokkurn veginn í takt við þróunina síðustu mánuði og ekki að sjá að markaðurinn þar sé farinn að sýna marktæk merki kólnunar.
Það höfðu borist vísbendingar um að markaðurinn væri farinn að róast og var þessi mæling því aðeins ofan við væntingar okkar. Í síðustu viku birti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skýrslu þar sem fram kom að meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefði lengst, var 35 dagar í apríl en lengdist í 46 daga í maí. Sölutími hefur ekki lengst svo mikið milli mánaða síðan í ársbyrjun 2018, en þá fór verulega að hægja á verðhækkunum eftir langt tímabil mikilla verðhækkana.
Í síðustu viku gáfum við út spá um verðbólgu í júlí þar sem gert var ráð fyrir 0,5% hækkun á vísitölu neysluverðs milli mánaða og að verðbólga yrði 9,2% í júlí. Húsnæði hefur verið einn helsti drifkraftur verðbólgunnar síðustu mánuði og er hækkunin sem nú sést í gögnum Þjóðskrár um íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu til þess fallin að breyta skoðun okkar. Nú teljum við að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,6% milli mánaða og að verðbólga muni mælast 9,3% í júlí en ekki 9,2%.