Ársverðbólga úr 8,0% í 7,9%

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,60% á milli mánaða í október, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar því lítillega á milli mánaða, úr 8,0% í 7,9%. Við höfðum spáð 0,53% hækkun á milli mánaða og að ársverðbólga yrði 7,8%.
Verð á mat og drykk hækkaði meira en við spáðum
Helsti munurinn á milli spár okkar og mælingar Hagstofunnar er að verð á mat og drykkjarvörum og á reiknaðri húsaleigu hækkaði meira en við gerðum ráð fyrir. Á móti lækkaði verð á flugfargjöldum meira en við spáðum. Liðurinn hótel og veitingastaðir lækkaði einnig meira en við gerðum ráð fyrir.
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 2% milli mánaða þar sem markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 1,5% en áhrif vaxta voru 0,5% til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði meira en við höfðum gert ráð fyrir en áhrif vaxta voru eins og við höfðum spáð. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis sem Hagstofan reiknar tekur tillit til landsins í heild, en fyrr í mánuðinum gaf HMS út vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og sú vísitala hækkaði um 1,4% milli mánaða. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði íbúðaverðverð utan höfuðborgarsvæðisins um 2,5% milli mánaða í september.
- Verð á matvöru hækkaði um 1% á milli mánaða, en við höfðum gert ráð fyrir 0,4%. Verð á kjöti og mjólkurafurðum hefur mest áhrif til hækkunar í þessum mánuði. Hluta af hækkun á mjólkurafurðum má rekja til ákvörðunar verðlagsnefndar búvara um hækkun á lámarksverði mjólkur til bænda. Við gerum ráð fyrir að sú hækkun hafi áfram áhrif á vísitöluna í næsta mánuði.
- Liðurinn tómstundir og menning hækkaði einnig nokkuð umfram okkar spá. Verð á bókum og pakkaferðum til útlanda leiddu hækkanir á þeim lið.
- Hótel og veitingastaðir lækkuðu um 1,3% milli mánaða, en við höfðum gert ráð fyrir 0,3% hækkun.
- Flugfargjöld til útlanda lækkuðu einnig um 2,1% en við höfðum spáð 0,2% lækkun.
Húsnæði aftur sá undirliður sem vegur þyngst
Ársverðbólga hjaðnaði um 0,1 prósentustig milli mánaða og er nú 7,9%. Framlag húsnæðis til ársverðbólgu jókst á milli mánaða og fór hlutur þess úr 2,2 prósentustigum í 2,4 prósentustig af 7,9% verðbólgu. Húsnæði er því aftur sá liður sem vegur þyngst í ársverðbólgunni, en síðustu tvo mánuði var það þjónusta sem dró vagninn. Hlutur þjónustu lækkaði úr 2,4 prósentustigum í 2,3 í október. Hlutur innfluttra vara án bensíns lækkaði úr 2 prósentustigum í 1,8 og hlutur innlendra vara og bensíns stóð nokkurn veginn í stað á milli mánaða.
Gerum ráð fyrir 6,6% verðbólgu í janúar
Í ljósi verðbólgumælingarinnar í morgun hækkum við verðbólguspá okkar fyrir næstu mánuði lítillega. Við gerum nú ráð fyrir 7,8% verðbólgu í nóvember, 7,7% í desember og 6,6% í janúar. Við lyftum spánni upp um 0,1 prósentustig í nóvember og desember og um 0,2% í janúar. Munurinn milli spáa skýrist annars vegar af að talan í morgun var aðeins hærri en við áttum von á og hins vegar af að við gerum nú ráð fyrir verðhækkun á nýjum bílum í janúar vegna niðurfellingar á VSK-afslætti af rafbílum, sem tekur gildi um áramótin. Þó var nýlega tilkynnt að í stað VSK-afsláttar yrði kaupendum rafbíla veittur styrkur. Niðurgreiðslan verður þó minni en hún var í gegnum VSK-afsláttinn. Erfitt er spá fyrir um áhrif þessarar breytingar, bæði vegna þess að áformin gætu breyst en einnig vegna þess að enn er óljóst hvernig Hagstofan mun taka tillit til niðurgreiðslunnar í sínum verðmælingum.
Mikil lækkun verðbólgunnar í janúar á næsta ári skýrist af því hversu verulega vísitalan hækkaði í janúar í ár og sá mánuður dettur út úr verðbólgunni í janúar á næsta ári.
Þessi nýjasta verðbólgumæling er sú síðasta fyrir næsta fund peningastefnunefndar. Næsta vaxtaákvörðun verður birt 22. nóvember næstkomandi.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








