Breyting á vöxtum og framboði verðtryggðra íbúðalána
Landsbankinn breytir í dag vöxtum á inn- og útlánum. Jafnframt taka gildi breytingar á framboði verðtryggðra íbúðalána.
Innlánsvextir
- Breytilegir vextir á verðtryggðum innlánsreikningum hækka um 0,25 prósentustig.
- Vextir á gjaldeyrisreikningum taka breytingum með hliðsjón af vaxtastigi viðkomandi myntar.
Útlánsvextir
- Fastir vextir á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum til 36 og 60 mánaða lækka um 0,20 prósentustig.
- Fastir vextir á óverðtryggðum útlánum vegna bíla- og tækjafjármögnunar lækka um 0,20 prósentustig.
- Breytilegir vextir verðtryggðra íbúðalána hækka um 0,25 prósentustig.
- Fastir vextir á nýjum verðtryggðum íbúðalánum til 60 mánaða hækka um 0,50 prósentustig.
- Kjörvextir á verðtryggðum útlánum hækka um 0,50 prósentustig.
Breytt framboð verðtryggðra íbúðalána
Samhliða þessum vaxtabreytingum taka gildi breytingar á framboði verðtryggðra íbúðalána og verða verðtryggð íbúðalán með jöfnum greiðslum nú eingöngu í boði fyrir fyrstu kaupendur. Engar breytingar verða á framboði verðtryggðra lána með jöfnum afborgunum.
Hámarkslánstími nýrra verðtryggðra íbúðalána er áfram 30 ár og hámarkslánstími nýrra óverðtryggðra íbúðalána er áfram 40 ár. Hámarksveðhlutföll nýrra íbúðalána haldast óbreytt.
Breytingarnar taka gildi mánudaginn 23. september 2024. Breytingar á vöxtum á lánum sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taka þó gildi í samræmi við tilkynningar þar að lútandi sem sendar verða viðskiptavinum í netbanka.