Opnunartími styttist í sjö útibúum en þjónustutími óbreyttur
Þann 13. september styttist opnunartími í sjö útibúum bankans um þrjár klukkustundir og verður þar framvegis opið frá kl. 12-15. Þó almennur opnunartími styttist verður áfram hægt að panta tíma í þessum útibúum frá kl. 10-16 og fjarfund til kl. 18 þannig að þjónustutími skerðist ekki. Á öllum þessum stöðum eru hraðbankar aðgengilegir allan sólarhringinn.
Þá mun útibúum fækka um eitt þegar Vesturbæjarútibú í Reykjavík sameinast nýja útibúinu í Reykjastræti 6.
Engar uppsagnir fylgja breytingunum og starfshlutföll haldast óbreytt. Breytingarnar taka sem fyrr segir gildi 13. september.
Opnunartími breytist í kl. 12-15 alla virka daga á eftirfarandi stöðum:
- Dalvík
- Grindavík
- Höfn í Hornafirði
- Húsavík
- Hvolsvöllur
- Ólafsvík
- Reyðarfjörður
Heimsóknum fækkar og aðgerðum í appi og netbanka fjölgar
Ástæðan fyrir breytingunum er að heimsóknum viðskiptavina í útibú heldur áfram að fækka, í takt við aukna notkun á appi og netbanka. Þá fjölgum við stöðugt aðgerðum sem mögulegt er að framkvæma í appinu eða netbankanum. Erindum sem aðeins er hægt að leysa í útibúi hefur því fækkað.
Starfsfólk á landsbyggðinni veitir þjónustu óháð búsetu
Starfsfólk í útibúum á landsbyggðinni hefur á undanförnum árum í auknum mæli tekið þátt í að veita ráðgjöf og þjónustu í gegnum síma, í gegnum tölvupóst eða á fjarfundum, óháð búsetu viðskiptavina. Sem dæmi má nefna að árið 2022 voru um 60% af bókuðum ráðgjafarsamtölum veitt af starfsfólki á landsbyggðinni og á þessu ári hafa þau alls veitt tæplega 10.000 viðskiptavinum aðstoð í gegnum síma. Með því að stytta opnunartíma fær starfsfólkið meira svigrúm til að sinna þessum verkefnum. Áhersla okkar á vera til staðar um allt land er óbreytt.
Hraðbankar áfram í Vesturbæ
Heimsóknum í Vesturbæjarútibú hefur fækkað töluvert á undanförnum árum og var því ákveðið að það myndi sameinast nýja útibúinu í Reykjastræti 6 sem opnar 13. september. Starfsfólk í Vesturbæjarútibú heldur áfram störfum í öðrum útibúum bankans á höfuðborgarsvæðinu. Hraðbankar og önnur sjálfsafgreiðslutæki verða áfram aðgengileg í Vesturbænum.
Eftir þessar breytingar mun bankinn reka 35 útibú og afgreiðslur um allt land, þar af sex á höfuðborgarsvæðinu.