AB-Fasteignir fá sjálfbærnimerki Landsbankans
AB-Fasteignir hafa fengið sjálfbærnimerki Landsbankans vegna framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Merkið er veitt þeim fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans og standast strangar kröfur um umhverfisvæn verkefni.
Birkir Þór Guðmundsson, stjórnarformaður og annar af stofnendum AB-Fasteigna ásamt Ásgeiri Mikkaelssyni, segir: „Við erum stoltir af að tilheyra þeim hópi fyrirtækja sem hafa hlotið sjálfbærnimerki Landsbankans og tökum við þeirri viðurkenningu með þakklæti og af auðmýkt. Frá því að AB-Fasteignir hófu að byggja minni vatnsaflsvirkjanir á Íslandi höfum við lagt okkur fram um að lágmarka umhverfisáhrif framkvæmda, ásamt því að hafa afturkræfni mannvirkja félagsins að leiðarljósi. Raforkan sem við framleiðum er að öllu leyti endurnýtanlegur orkugjafi. Það ásamt afturkræfninni styður með sjálfbærum hætti við umhverfisvernd, ásamt því að leggja drjúgan skerf til kolefnisjöfnunar. Framleiðslueiningar okkar eru á jaðarsvæðum í raforkukerfi Íslands. Þannig stuðlum við að betra afhendingaröryggi raforku ásamt því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis til raforkuvinnslu þegar þörf er fyrir varaafl í raforkuflutningskerfi landsins. Sjálfbærnimerki Landsbankans er stór viðurkenning og mikilvæg hvatning fyrir okkur til að halda áfram á okkar vegferð að láta gott af okkur leiða fyrir umhverfið, nú á tímum stórátaks í loftslagsmálum og orkuskiptum.“
Á myndinni eru Ásgeir Mikkaelsson og Birkir Þór Guðmundsson, stofnendur og eigendur AB-Fasteigna og Eva Dögg Kristinsdóttir, viðskiptastjóri hjá Landsbankanum.