Öflugt sjálfbærniteymi vinnur að vaxandi verkefnum
Landsbankinn leggur mikla áherslu á sjálfbærni, enda gerir markaðurinn kröfu um að málaflokknum sé sinnt vel, viðskiptavinir hafa áhuga á þessum málum og regluverk í kringum málaflokkinn færist í aukanna. Sjálfbærnistarf bankans hefur aukist að umfangi og hjá bankanum starfar öflugt sjálfbærniteymi.
Aðalheiður Snæbjarnardóttir tók við nýrri stöðu sjálfbærnistjóra Landsbankans árið 2022. Hún hefur starfað við sjálfbærnimál í rúmlega áratug, fyrst sem sjálfstæður ráðgjafi, en hún gekk til liðs við bankann árið 2019. Hún er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc.-gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands en einnig er hún menntaður klæðskeri. Aðalheiður er varaformaður Festu, miðstöðvar um sjálfbærni og er fulltrúi Festu í Loftslagsráði.
Með henni í teyminu eru Árni Páll Árnason og Jón Ragnar Guðmundsson. Árni Páll er með B.Sc.-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og starfaði áður í Hagfræðideild Landsbankans. Jón Ragnar er með B.Sc.-gráðu í heilbrigðisverkfræði og M.Sc.-gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Jón Ragnar starfaði áður sem sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Orkustofnun.
Sjálfbær fjármögnun
Sjálfbærnistefna Landsbankans er innleidd í starfsemi allra sviða bankans, skilgreinir helstu áherslur okkar í sjálfbærni og lýsir því hvernig við hyggjumst tileinka okkur þær í starfseminni.
Meðal verkefna sjálfbærniteymisins er umsjón með sjálfbærri fjármálaumgjörð Landsbankans og að tryggja að hún sé í samræmi við kröfur markaðarins um sjálfbær fjármál. Fyrirtæki sem uppfylla kröfur sjálfbæru fjármálaumgjarðarinnar geta fengið sjálfbæra fjármögnun og fengið því til staðfestingar sjálfbærnimerki Landsbankans.
Vísindalegt markmið í loftslagsmálum
Þá vinnur teymið nú að því að að gera bankanum kleift að setja sér vísindalegt markmið í loftslagsmálum (e. science-based target) sem verði samþykkt af samtökunum Science-Based Targets initiative. Markmiðið beinist að samdrætti í óbeinni losun Landsbankans frá útlánum í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C að meðaltali frá iðnbyltingu. Önnur verkefni eru m.a. að reikna út óbeina losun frá lána- og eignasafni bankans og upplýsingagjöf í tengslum við græna skuldabréfaútgáfu Landsbankans, svokölluð áhrifaskýrsla (e. impact report). Teymið ber einnig meginábyrgð á innleiðingu á nýjum reglum sem tengjast flokkunarkerfi Evrópusambandsins (EU Taxonomy) og SFDR-reglugerðinni. Þá vinnur teymið með samtökunum PBAF sem eru að þróa aðferðarfræði til að mæla áhrif fjármálafyrirtækja á líffræðilega fjölbreytni.
Nánar er fjallað um sjálfbærnistarf bankans í sérstökum kafla í árs- og sjálfbærniskýrslunni sem kom út í febrúar.
Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022
Á myndinni hér að ofan eru Árni Páll Árnason, Aðalheiður Snæbjarnardóttir og Jón Ragnar Guðmundsson.