Sigurvegarar Gulleggsins 2023
Viðskiptahugmyndin Better Sex sigraði í Gullegginu 2023, frumkvöðlakeppni Klak - Icelandic Startups. Better Sex er streymisveita fyrir fullorðna með faglegum og skemmtilegum fróðleik um kynlíf. Teymið skipa þau Sigga Dögg og Sævar Eyjólfsson.
Í öðru sæti var SoulTech, hugbúnaður sem aðstoðar sálfræðinga við að veita meðferðir. Í SoulTech teyminu eru þau Davíð Haraldsson, Stefán Ólafsson, Pétur Örn Jónsson, Bryndís Jóhannsdóttir og Hrefna Líf Ólafsdóttir.
Í þriðja sæti var StitchHero. StitchHero er öflugur hönnunarhugbúnaðar með þægilegu viðmóti sem umbreytir hönnun í nýtanlega prjónauppskrift. Þórey Rúnarsdóttir og Marta Schluneger mynd teymið á bak við verkefnið.
Vinsælasta teymið, kosið af áhorfendum, var PellisCol. PellisCol ætlar að þróa hágæða náttúrulegar húðvörur úr hreinu íslensku kollageni. Teymið skipa þau Íris Björk Marteinsdóttir og Ívar Örn Marteinsson.
Á Vef Gulleggsins má lesa nánar um verðlaunahugmyndirnar og þær tíu stigahæstu í keppninni.
Sara Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Samfélags Landsbankans, segir: „Nýsköpun er og verður úrslitaatriði þegar kemur að framtíð atvinnulífs og samkeppnishæfni á Íslandi. Þess vegna erum við hjá Landsbankanum mjög ánægð með að geta stutt við jafn skapandi verkefni og Gulleggið. Við leggjum áherslu á að vera þátttakandi í nýsköpunarverkefnum frá því að hugmynd verður til, við fjármögnun í uppbyggingu og í traustum rekstri til framtíðar. Gulleggið er mikilvægur liður í því, eins og sjá má á öllum þessum framúrskarandi verkefnum.”
Klak - Icelandic Startups hefur staðið að keppninni árlega allt frá árinu 2008 en keppnin er stökkpallur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd. Fjölmörg verkefni sem tekið hafa þátt í gegnum tíðina hafa notið mikillar velgengni, m.a. Controlant, Meniga, PayAnalytics og Genki.
Rúmlega 100 hugmyndir bárust í keppnina að þessu sinni og sóttu þátttakendur vinnusmiðjur, námskeið og fengu þjálfun í mótun viðskiptahugmynda. Landsbankinn hefur verið einn helsti bakhjarl Gulleggsins frá upphafi.