Fjölbreytt verkefni fá sjálfbærnistyrk Landsbankans
Verkefnin eru fjölbreytt en eiga það sameiginlegt að stuðla að sjálfbærni og hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Sérstök áhersla var lögð á að styðja við þróun lausna sem hraða orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti yfir í orkugjafa með lágt kolefnisspor.
Fjögur verkefni hlutu styrk að fjárhæð 2 milljónir og tvö verkefni að fjárhæð 1 milljón króna. Alls bárust sjóðnum tæplega 50 umsóknir í ár.
Sjálfbærnistyrkir 2022
2.000.000 kr.
Icewind - Vindtúrbínur sem eru sérstaklega hannaðar fyrir öfgafullt veðurfar á norðurslóðum. Stefnt er að því koma nýjustu útgáfunni í prófanir. Túrbínurnar eru hannaðar til að koma í stað díselvéla í fjarskipta-, eftirlits- og neyðarkerfum þar sem ekki er aðgangur að rafmagni.
SoGreen - Loftslagslausn sem miðar að því að minnka kolefnisspor verulega samtímis því að styrkja menntun stúlkna. Markmiðið er að brúa bilið milli fyrirtækja sem vilja kolefnisjafna rekstur með því að kaupa vottaðar kolefniseiningar, og samtaka sem leita eftir fjármagni til verkefna sem styrkja menntun og jafnrétti.
Snerpa Power - Markmiðið er að virkja raforkunotendur á Íslandi til þátttöku á raforkumarkaði, bæta þannig auðlindanýtingu og skapa aukið svigrúm fyrir orkuskiptin. Byggt er á hugbúnaðarlausn sem Snerpa Power hefur þróað.
Græn lína - Ráðgarður skiparáðgjöf. Verkefnið miðar að því að þróa og hanna nýjan 30 brúttótonna línubát með umhverfisvænum orku- og aflgjafa og stuðla þannig að minni útblæstri í sjávarúrvegi.
1.000.000 kr.
Gerosion – Þróun aðferðar til að nýta plastúrgang í stað kola í kísilmálms- og málmblendiframleiðslu.
Spaksmannsspjarir - Verkefnið miðar að því að þróa og aðlaga nýjar, framsæknar aðferðir við hönnun, prufugerð og sölu á fatnaði sem styður við hringrásarhagkerfi textíls fyrir fatahönnun og fataiðnað framtíðarinnar.
Tengist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
Sjálfbærnisjóður Landsbankans tengist tveimur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem við vinnum markvisst að hjá bankanum: Nr. 13., um aðgerðir í loftslagsmálum og nr. 9, um nýsköpun og uppbyggingu.
Í úthlutunarnefnd 2022 sátu Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sjálfbærnistjóri Landsbankans , Guðmundur Þorbjörnsson ráðgjafi hjá EFLU verkfræðistofu, Kristján Vigfússon háskólakennari í Háskólanum í Reykjavík og Sara Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Samfélags hjá Landsbankanum.
Á myndinni eru styrkþegar ársins 2022 ásamt Söru Pálsdóttur, framkvæmdastjóra Samfélags hjá Landsbankanum.