Frábærar hljómsveitir á off-venue dagskrá Landsbankans
Off-venue tónleikar Iceland Airwaves hafa verið órjúfanlegur hluti tónlistarhátíðarinnar í áraraðir. Þar hafa áhorfendur séð bæði vinsælar og óþekktari hljómsveitir í meira návígi og kósíheitum en ella. Þótt Iceland Airwaves verði með óhefðbundnu sniði í ár þá vill hátíðin samt halda í þennan anda. Fimm hljómsveitir, JóiPé & Króli, Moses Hightower, Sykur, gugusar og BSÍ, spila því á sérstakri off-venue dagskrá Landsbankans sem er aðgengileg á vefsvæðinu landsbankinn.is/icelandairwaves og á samfélagsmiðlum í aðdraganda Live from Reykjavík viðburðar Iceland Airwaves, sem fram fer 13. og 14. nóvember.
Landsbankinn hefur verið einn af aðalbakhjörlum Iceland Airwaves frá árinu 2014. Síðustu sjö ár höfum við búið til metnaðarfull myndbönd með efnilegu tónlistarfólki í kringum hátíðina, alls 18 hljómsveitum og tónlistarfólki. Meðal tónlistarfólks sem tók snemma þátt í verkefninu en áttu heldur betur eftir að springa út eru Vök, Bríet, Herra Hnetusmjör, GDRN og Auður.