Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans
Er sköpun möguleg í tómarúmi, án ytri áhrifa? Sköpunarferlið verður alltaf fyrir meðvituðum eða ómeðvituðum áhrifum að utan og er því nokkurs konar áhrifahringrás. Við horfum til fortíðar, til samstarfs- og samtíðarfólks, vegum, metum, sköpum og þannig heldur hringrásin áfram. Það er eðlislægur hluti af sköpunarferlinu að aðlagast og þróast til að mynda eitthvað nýtt.
Á Hringrás verða til sýnis verk eftir yfir 20 listamenn og þau eru: Anna Líndal, Arngunnur Ýr, Ásgrímur Jónsson, Dieter Roth, Edda Jónsdóttir, Eggert Pétursson, Erró, Gunnar Örn Gunnarsson, Gunnlaugur Scheving, Jóhann Briem, Jóhannes S. Kjarval, Karl Kvaran, Kristján Davíðsson, Nína Tryggvadóttir, Ragnheiður Jónsdóttir, Richard Serra, Róska, Sigurður Árni Sigurðsson, Snorri Arinbjarnar, Svavar Guðnason, Valtýr Pétursson og Þorvaldur Skúlason.
Listasafn Landsbankans er fjölbreytt og áhugavert og samanstendur af klassískum, táknfræðilegum verkum eldri kynslóða og góðu safni nútímalistar í mismunandi miðlum, allt frá málverkum til ljósmynda og skúlptúra, sem og verkum í blönduðum miðlum. Á sýningunni fá gestir innsýn í breidd og dýpt íslenskrar listasögu en hún inniheldur einnig verk eftir erlent listafólk sem varð fyrir íslenskum áhrifum.
Sýningin hefur einnig sögulegt gildi fyrir Landsbankann en með henni kveður bankinn Austurstræti 11 og flytur starfsemi sína í Reykjastræti 6.
Hringrás er þriðja sýningin á myndlist í eigu bankans frá árinu 2020. Þá voru sýnd verk eftir Jóhannes S. Kjarval og í loks árs 2021 opnaði sýning á íslenskum abstraktverkum. Sýningin Hringrás opnar formlega á Menningarnótt 19. ágúst 2023 og mun standa yfir þar til útibúið í Austurstræti lokar og færist yfir í nýtt húsnæði bankans við Reykjastræti 6 sem áætlað er að verði í september 2023.