Í listasafni Landsbankans er að finna fjölbreytt úrval verka eftir helstu abstraktmálara þjóðarinnar, kannski í meira mæli en búast mætti við af gamalgróinni bankastofnun. Í árdaga abstraktlistar, 1950-60, átti hún í vök að verjast meðal íhaldsamra landsmanna og því hafa kaup bankans á slíkri myndlist tvímælalaust aukið á vinsældir hennar meðal almennings. Vegna þessarar áherslu bankans geymir listasafn hans eitt stærsta úrval landsins af verkum eftir helstu abstraktmálara þjóðarinnar, t.d. Karl Kvaran.
Viðauki við veruleikann
Megineinkenni á þeirri tegund abstraktlistar sem hér um ræðir er að hún skírskotar í engu til veruleikans, heldur kappkosta listamennirnir að skapa eigin viðauka við veruleikann með sléttum eintóna flötum og skýrt dregnum línum, helst láréttum og lóðréttum. Oftast er þessi myndlist kennd við rúmfræði (geómetríu) eða „stranga fleti“.
Andsvör við umróti
En annars konar abstraktmyndlist, skýrt dregin, knöpp og skipuleg, hefur einnig komið hér fram undir öðrum formerkjum. Eftir myndlistarlegan hreinsunareld hins fígúratífa „nýja málverks“ á níunda áratug síðustu aldar komu nokkrir myndlistarmenn fram með andsvör við því umróti.
Myndlist þeirra var að sönnu abstrakt, en ekki bundin tiltekinni fagurfræði. Hún var persónubundin og hugmyndatengd og hugmyndirnar jafn margar og höfundarnir, sjá t.d. verk eftir Sigurð Árna Sigurðsson. Í heildina var markmið þeirra ekki að skapa nýja myndheima, heldur að brjóta til mergjar þann sjónheim sem við búum við.
Hér er gerð tilraun til að tefla saman verkum úr safni Landsbankans eftir fulltrúa þessara tveggja viðhorfa.
Sýningin er hluti af sýningaröðinni: Listasafn Landsbankans: Sýningaröð um menningararf.
Sýning með verkum eftir Jóhannes S. Kjarval opnaði í útibúinu í Austurstræti í janúar 2020.
Aðalsteinn Ingólfsson er listfræðingur og sýningarstjóri sýningaraðarinnar.