Vinnumarkaðskönnun - flestar tölur vísa í rétta átt
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands er áætlað að um 215.400 manns hafi verið á vinnumarkaði í febrúar og hafa aldei verið fleiri. Það jafngildir 80,4% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 206.200 starfandi og um 9.200 atvinnulausir og í atvinnuleit, eða um 4,3% af vinnuaflinu.
Starfandi fólki fjölgaði um 17.900 milli ára í febrúar og atvinnulausum fækkaði um 3.100 á sama tíma. Hlutfall starfandi var 75,1% í febrúar og hækkaði um 3,1 prósentustig frá febrúar 2021.
Atvinnuþátttaka hefur aukist síðustu mánuði og var 80,4% nú í febrúar sem er 4 prósentustigum hærra en í febrúar 2021. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í 82%. Samsvarandi tala nú er 79,4% og hefur atvinnuþátttaka aukist nokkuð stöðugt allt síðasta ár á þennan mælikvarða.
Atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 4,3% í febrúar sem er 1,8 prósentustigum lægra en á sama tíma í fyrra. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 5,2% og hafði minnkað um 2,3 prósentustig milli ára.
Niðurstöður vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar sveiflast stundum nokkuð eftir mánuðum. Þannig var atvinnuleysi í febrúar einu prósentustigi hærra en í janúar. Hagstofan birtir einnig árstíðaleiðréttar tölur og samkvæmt þeim var atvinnuleysi í febrúar einnig 4,5% sem er eilítið hærri niðurstaða en mæld var í mánuðinum. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi dróst saman um 1,9 prósentustig á milli ára og hefur hlutfall atvinnulausra á þann mælikvarða ekki mælst lægra síðan í árslok 2019, áður en áhrifa faraldursins fór að gæta á íslenskum vinnumarkaði.
Vinnutími hefur styst töluvert á undanförnum misserum. Venjulegur vikulegur vinnutími var þannig 36,9 stundir nú í febrúar sem er 0,3 stundum styttra en í febrúar 2021. Sveiflur eru miklar í vinnutíma milli mánaða, en sé horft til 12 mánaða hlaupandi meðaltals er vinnutími nú rúmlega klukkustund styttri en hann var í upphafi ársins 2020. Áherslur í síðustu kjarasamningum um styttingu vinnutíma sjást því greinilega í niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar.
Starfandi fólki í febrúar 2022 fjölgaði um 9,5% miðað við sama tíma 2021. Vinnutími styttist um 0,8% á sama tíma þannig að heildarvinnustundum fjölgaði um 8,7% milli ára. Þetta er ellefti mánuðurinn í röð sem heildarvinnustundum fjölgar og hefur aukningin verið sérstaklega mikil síðustu fimm mánuði.