Vikubyrjun 7. júní 2022
Vikan framundan
- Icelandair og PLAY birta flutningstölur fyrir maí í þessari viku.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn útreikning á raungengi í maí.
- Á fimmtudaginn munu Lánamál ríkisins birta markaðsupplýsingar.
- Á föstudaginn birtir Ferðamálastofa talningu á fjölda ferðamanna um Leifsstöð í maí.
- Í þessari viku heldur hlutafjárútboð Nova Klúbbsins hf. áfram og lýkur á föstudaginn.
Mynd vikunnar
Kröftugur vöxtur mældist á öllum lykilþáttum landsframleiðslunnar, einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi á fyrsta fjórðungi þessa árs. Ferðaþjónustan setur sitt mark á hagvöxtinn en samkvæmt bráðabirgðamati Hagstofu Íslands jókst landsframleiðslan um 8,6% á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama tímabil í fyrra og er þessi vöxtur að miklu leyti borinn áfram af fjölgun ferðamanna, en rúmlega 230 þúsund fleiri ferðamenn komu til landsins á fyrsta fjórðungi þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra. Þetta var fjórði ársfjórðungurinn í röð með jákvæðum hagvexti og er frekari staðfesting á því að hagkerfið sé á réttri leið.
Efnahagsmál
- Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,77% milli apríl og maí og VNV án húsnæðis hækkaði um 0,42%. Verðbólgan mælist nú 7,6% samanborið við 7,2% í apríl en við teljum að hún nái hámarki í ágúst næstkomandi og verði þá 8,5%.
- Hagstofan birti þjóðhagsreikninga fyrir fyrsta ársfjórðung. Ferðaþjónustan setur sitt mark á hagvöxtinn á fyrsta fjórðungi en fjöldi gistinótta í apríl ríflega fimmfaldaðist milli ára.
- Rúmlega 50 ma.kr. halli var á viðskiptajöfnuði við útlönd á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sem er tæplega 6 ma.kr. lakari niðurstaða en ársfjórðunginn á undan, samkvæmt Seðlabankanum.
- Ferðamálastofa birti tölur um hlutfallslega skiptingu brottfarafarþega í maí.
Fjármálamarkaðir
- Lánamál ríkisins luku útboði ríkisvíxla og Arion banki lauk útboði á sértryggðum skuldabréfaflokki.
- Hagar gáfu út ársskýrslu og sjálfbærniuppgjör.
- S&P hækkaði lánshæfismat sértryggðra skuldabréfa Íslandsbanka úr A- í A, en lánshæfismatsfyrirtækið gerði slíkt hið sama við Landsbankann og Arion banka í þarsíðustu viku.