Vikan framundan
- Seinna í dag birtir Ferðamálastofa mánaðarlega Ferðaþjónusta í tölum yfirlit sitt og Hagstofan birtir gistinætur í desember.
- Á miðvikudag birtir Marel uppgjör og Seðlabankinn birtir niðurstöður könnunar á væntingum markaðsaðila.
- Á fimmtudag birta Icelandair, Landsbankinn, Origo og Skeljungur uppgjör. Sama dag er vaxtaákvörðun hjá Englandsbanka.
Mynd vikunnar
Verðbólgan mældist 5,7% í janúar en var 1,7% janúar 2020. Alls hefur verðbólgan því hækkað um 4 prósentustig á tveimur árum. Aukin verðbólga árið 2020 var nær eingöngu vegna hækkana á innfluttum vörum án bensíns, en krónan veiktist á árinu. Þróunin innan árs í 2021 og í janúar í ár var síðan á þá leið að áhrif innfluttra vara án bensíns hefur fjarað út en í staðinn hefur framlag húsnæðiskostnaðar og þjónustu aukist ásamt því að bensín fór frá því að vera til lækkunar á ársverðbólgunni í að vera til hækkunar.
Efnahagsmál
- Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,50% milli mánaða í janúar og mælist verðbólgan 5,7% samanborið við 5,1% í desember. Óhætt er að segja að þetta hafi komið verulega á óvart, en við spáðum 0,2% lækkun milli mánaða. Verðbólgan hefur ekki mælst hærri síðan í apríl 2012.
- Vísitala launa var nær óbreytt milli mánaða í desember. Launavísitalan hækkaði um 8,3% á milli meðaltala áranna 2020 og 2021. Þetta er mun meiri hækkun en á næstu árum þar á undan og hefur vísitalan ekki hækkað meira frá því á árinu 2016. Meðalhækkun vísitölunnar frá aldamótum er 6,9%.
- Í desember námu hrein ný íbúðalán innlánastofnana alls 18,6 mö.kr. Mikil virkni og veruleg hækkun íbúðaverðs á síðasta ári varð ekki til þess að heimili juku skuldsetningu markvert í formi íbúðalána. Lægri vextir hafa aukið hlutdeild óverðtryggðra lána og nú er orðið algengara að fólk festi vexti slíkra lána þar sem vaxtahækkunarferli er þegar hafið.
- Atvinnuleysi samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands mældist 4,4% í desember sem er 2,5 prósentustigum lægra en desember árið áður. Starfandi fólki fjölgaði um 11.800 milli ára í desember og atvinnulausum fækkaði um 4.700 á sama tíma. Hlutfall starfandi var 74,6% í desember og hækkaði um 3 prósentustig frá desember 2020.
- Hagstofan birti í síðustu viku vísitölu byggingarkostnaðar fyrir janúar , tilraunatölfræði um eldsneytissölu á 4. ársfjórðungi og mannfjölda í lok árs 2021.
- Seðlabankinn birti talnaefni um bankakerfið, lánasjóði ríkisins, verðbr.-, fjárfest.- og fagfjárfestasjóðir, önnur fjármálafyrirtæki og verðbréfafjárfesting.
- Hagdeild HMS birti samantekt á kaupverði íbúða.
Fjármálamarkaðir
- S&P staðfesti lánshæfismat Íslandsbanka.
- Lánamál ríkisins luku útboði ríkisbréfa og Reykjavíkurborg lauk skuldabréfaútboði.