Verðbólga hækkar í 6,3%, meira en spár gerðu ráð fyrir
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,46% milli mánaða í júlí, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Líkt og venjan er í júlí vógust á sumarútsölur og hækkanir á flugfargjöldum til útlanda. Hefði ekki verið fyrir þessar árstíðabundnu hreyfingar hefði vísitalan hækkað svipað og hún gerði, eða um 0,43%. Þetta var mun meiri hækkun en við höfðum gert ráð fyrir, en við spáðum 0,15% hækkun milli mánaða og að ársverðbólgan myndi einungis hækka í 5,9%. Mestu munar um að útsölur á fötum og skóm voru mun lakari en við spáðum og matarkarfan hækkaði meira. Af 0,3 prósenta mun á spá okkar um breytingu milli mánaða (0,15%) og mælingu Hagstofunnar (0,46%) skýrist um þriðjungur af fötum og skóm, þriðjungur af matarkörfunni og þriðjungur af öðrum liðum.
Húsnæði skýrir mestu hækkunina á ársverðbólgunni
Ársverðbólgan hækkaði úr 5,8% í 6,3%, um 0,5 prósentustig. Þessi hækkun úr 5,8% í 6,3% skýrist aðallega af framlagi húsnæðis sem hækkaði um 0,3 prósentustig milli mánaða, en reiknuð húsaleiga lækkaði milli mánaða í júlí í fyrra og dettur sú mæling út úr ársverðbólgunni. Auk þess hækkaði framlag innfluttra vara án bensíns um 0,1 prósentustig og framlag innlendra vara um 0,1 prósentustig.
Helstu liðir vísitölunnar
- Föt og skór lækkuðu um 6,2% milli mánaða (-0,24% áhrif á vísitölu) vegna sumarútsala. Þetta er nokkuð minni lækkun en við gerðum ráð fyrir, en við spáðum 9,2% lækkun.
- Húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu um 6,2% (-0,13% áhrif) einnig vegna sumarútsala. Þetta var svipað og við spáðum.
- Matur og drykkjarvara hækkuðu um 1,0% (+0,16% áhrif) sem er mun meiri hækkun en við bjuggumst við, en við spáðum 0,3% hækkun.
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,5% (+0,09% áhrif) sem er mjög nærri því sem við spáðum.
- Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 16,5% (+0,34% áhrif) sem er einnig mjög svipað og við áttum von á.
Matarkarfan hækkaði
Það sem veldur einna mestum áhyggjum í tölunum er að matur og drykkjarvara hækkuðu um 1,0% (+0,16% áhrif), langt umfram okkar spá. Ávextir, sætindi, grænmeti og kjöt eru meðal þeirra matvara sem hækkuðu nokkuð ríflega milli mánaða.
Sumarútsölur dræmar
Svo virtist sem hliðrun hafi orðið á tímasetningu sumarútsalna, en verð á fötum og skóm lækkaði, nokkuð óvænt, milli mánaða í júní. Sé horft á júní og júlí mánuð saman sést engu að síður að útsölurnar voru nokkuð dræmar, en heildarlækkun í júní og júlí var nokkuð minni en í fyrra og mun minni en tíðkaðist fyrir heimsfaraldurinn.
Flugfargjöld hækkuðu í samræmi við væntingar
Almennt má sjá nokkuð skýra árstíðarsveiflu á flugfargjöldum til útlanda. Þau eru hæst í júlí, lækka svo með haustinu og hækka svo aftur fyrir jól og páska. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 16,5% milli mánaða (+0,34% áhrif) sem er aðeins meiri hækkun en við gerðum ráð fyrir. Það var því um 1,4% dýrara að fljúga til útlanda í júlí í ár en í júlí í fyrra, en þetta er í fyrsta sinn síðan í nóvember í fyrra sem verð á flugfargjöldum hækka milli ára. Við upphaf þessa árs var um 10,8% ódýrara að fljúga til útlanda en árið áður.
Innleiðing kílómetragjalds mun hugsanlega lækka verðbólgumælingar Hagstofunnar
Við upphaf næsta árs áforma stjórnvöld að innleiða kílómetragjald fyrir öll ökutæki. Þetta gjald kemur í stað olíu- og bensíngjalda sem verða samhliða felld brott. Það má gera ráð fyrir að bensín lækki töluvert í verði við þetta og þar með verða áhrifin af breytingunni til lækkunar á vísitölu neysluverðs, nema Hagstofan taki þetta sérstaklega inn í öðrum undirlið. Endanleg útfærsla liggur ekki fyrir og þess vegna hefur Hagstofan ekki tekið formlega afstöðu, en ef þetta verður útfært með sama hætti og kílómetragjald fyrir rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbíla mun kílómetragjaldið ekki koma inn í vísitölu neysluverðs. Þetta fer þó eftir því hvort gjaldið verði sérstaklega eyrnamerkt vegaframkvæmdum eða ekki. Komi kílómetragjaldið ekki inn í vísitöluna má búast við að breytingin hafi áhrif til lækkunar á verðmælingum Hagstofunnar. Líklegt má þó telja að Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands komi til með að horfa fram hjá breytingunni, enda undirliggjandi verðþrýstingur óbreyttur.
Spáum nær óbreyttri verðbólgu fram í september
Við gerum ráð fyrir að ársverðbólgan verði 6,2% í ágúst, 6,1% í september og 5,6% í október. Spáin er um 0,2-0,3 prósentustigum hærri en síðasta verðbólguspá sem við birtum í verðkönnunarvikunni. Skýrist það aðallega af því að júlímælingin er hærri en við höfðum spáð. Á móti vegur að við spáum nú minni verðhækkunum á fötum og skóm vegna útsöluloka í ágúst og september. Verðbólgumælingin er sú síðasta fyrir næstu vaxtaákvörðun, 21. ágúst. Undanfarið höfum við gert ráð fyrir að vöxtum verði haldið óbreyttum í ágúst og við höldum okkur við þá spá í bili.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.