Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,59% milli mánaða í október og mælist verðbólga nú 4,5%. Þetta er mesta verðbólga á árinu frá því í apríl þegar hún mældist 4,6%. Verðbólga er að miklu leyti til knúin áfram af miklum hækkunum á íbúðaverði en verðbólga án húsnæðis mældist 3% í október.
Verðbólgan var í samræmi við spá okkar en við höfðum einnig spáð 4,5% verðbólgu. Mest áhrif til hækkunar hafði kostnaður við að búa í eigin húsnæði sem hækkaði um 1,4% milli mánaða (áhrif á vísitölu: 0,23%), bensín og olíur sem hækkuðu um 4,2% milli mánaða (áhrif á vísitölu: 0,13%) og húsgögn og heimilisbúnaður sem hækkuðu um 1,3% (áhrif á vísitölu: 0,09%). Mestu áhrif til lækkunar höfðu flugfargjöld til útlanda sem lækkuðu um 4,3% (áhrif á vísitölu: -0,06%).