Útflutningsverðmæti stoðanna þriggja sló aftur met á öðrum fjórðungi
Útflutningsverðmæti stoðanna þriggja jókst um tæpan 141 ma.kr. frá sama tímabili í fyrra. Langmest af þeirri aukningu kemur til vegna útflutningstekna ferðaþjónustu sem jukust um 85 ma.kr. milli ára. Næstmesta aukningin var í útflutningi áls, eða 45 ma.kr., en útflutningsverðmæti sjávarútvegs jókst um 10,8 ma.kr. milli ára.
Heildarútflutningsverðmæti vara og þjónustu nam 438,3 mö.kr. á öðrum fjórðungi og jókst um 151,2 ma.kr., eða 53%, milli ára. Langmest af þeirri aukningu kemur til vegna meiri tekna af stoðunum þremur, eða 93% af aukningunni.
Hallinn á vöru- og þjónustuviðskiptum nam því um 7 mö.kr. Þetta var þriðji ársfjórðungurinn í röð með halla en hallinn nú var þó minni en á fyrsta fjórðungi og fjórða fjórðungi síðasta árs. Þannig var hallinn 31,5 ma.kr. á fyrsta fjórðungi og 16,1 ma.kr. á fjórða fjórðungi í fyrra.
Innflutningsverðmæti vara og þjónustu nam 445,2 mö.kr. og jókst um 125,9 ma.kr., eða 39,4% milli ára. Innflutningsverðmæti vara jókst um 54,6 ma.kr., eða 23%. Þá aukningu má rekja að miklu leyti til aukins innflutnings á eldsneyti en það skýrist bæði af hækkun á eldsneytisverði sökum hækkunar á heimsmarkaðsverði hráolíu en einnig af auknu innflutningsmagni í tonnum talið. Aukið innflutningsmagn skýrist síðan aftur af tíðari flugferðum til og frá landinu vegna aukins fjölda erlendra ferðamanna. Þannig jókst innflutningsverðmæti þotueldsneytis um 13,2 ma.kr. sem er tæplega tíföldun í verðmæti. Innflutningur á þotueldsneyti fimmfaldaðist að magni til og endurspeglast mismunurinn á magnbreytingunni og verðmætabreytingunni í hærra eldsneytisverði.
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar nam 114,7 mö.kr. og tæplega fjórfaldaðist milli ára. Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar voru einungis 29,7 ma.kr. á öðrum fjórðungi í fyrra og 7,8 ma.kr. á fyrsta fjórðungi þess árs en þetta voru þeir fjórðungar þar sem útflutningstekjur ferðaþjónustunnar voru minnstar í faraldrinum. Mun meiri aukning varð á útflutningi í farþegaflutningum en ferðalögum. Þannig sjöfaldaðist útflutningsverðmæti farþegaflugs milli tímabila en útflutningsverðmæti ferðalaga jókst um 233%. Fjölgun erlendra ferðamanna milli tímabila nam 524%.
Útflutningsverðmæti áls nam 104 mö.kr. og jókst um 76% milli ára. Þetta er mesta útflutningsverðmæti áls frá landinu í sögunni á einum fjórðungi. Aukningin skýrist að miklu leyti af hærra álverði en það var að meðaltali 2.900 Bandaríkjadollarar á öðrum fjórðungi. Á sama tímabili í fyrra var það 2.400 dollarar og jókst því um rúmlega 20% milli ára. Það sem einnig skýrir aukninguna er að útflutt magn jókst um 4% milli tímabila og krónan veiktist gagnvart dollaranum.
Umfang útflutnings hefur verið að vaxa og mun það hafa jákvæð áhrif til styrkingar á gengi krónunnar. Áfram má gera ráð fyrir töluvert mikilli fjölgun erlendra ferðamanna á næstunni og mun það styðja við aukið innflæði gjaldeyris.
Álverð hefur rétt eins og verð á annarri hrávöru verið að leita niður á við og mun það draga úr útflutningsverðmætinu. Engu að síður er það enn fremur hátt í sögulegu ljósi. Innflutningur hefur einnig vaxið verulega samfara aukinni eftirspurn og má rekja þá aukningu meðal annars til aukinna ferðalaga erlendra ferðamanna hingað til lands. Heilt yfir teljum við að það verði afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á seinni árshelmingi sem mun styðja við styrkingu krónunnar.