Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var þetta versta rekstrarár í sögu íslenskrar ferðaþjónustu en heimsfaraldurinn lék ferðaþjónustu í heiminum grátt á síðasta ári. Erlendum ferðamönnum fækkaði mikið hér á landi og hvers kyns samgöngutakmarkanir leiddu til þess að mörg ferðaþjónustufyrirtæki sáu sér þann eina kost að loka tímabundið og sum lögðu upp laupana.
Árið 2019 var hagnaður fyrir skatta 3,2 ma. kr. og má rekja umskiptin í afkomu helst til mikils tekjusamdráttar. Tekjur ferðaþjónustunnar námu 278,2 mö. kr. á síðasta ári borið saman við 627,3 ma. kr. árið áður og drógust því saman um 349 ma. kr. eða 56% milli ára. Leita þarf aftur til ársins 2009 til að finna lægri tekjur en þá námu þær 257,2 mö. kr. Tekjutapið milli ára skýrist fyrst og fremst af mikilli fækkun erlendra ferðamanna. Tapið skýrist þó einnig að hluta til af því að einhver félög lögðu upp laupana á síðasta ári og skiluðu því ekki ársreikningi. Þannig var fjöldi ársreikninga í þýði Hagstofunnar 4.340 fyrir árið 2020 en 4.670 fyrir árið 2019. Mikið var um tímabundnar lokanir hjá ýmsum fyrirtækjum s.s. hótelum. Á meðan tóku þau ekki á móti ferðamönnum og urðu því af einhverjum tekjum af þeim sökum.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Tap ferðaþjónustufyrirtækja nam 105 mö. kr. árið 2020