Spáum 8,9% verðbólgu í júní
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,39% milli mánaða í maí og við það fór ársverðbólgan úr 9,9% í 9,5%. Vísitalan hækkaði minna í maí en við bjuggumst við en við höfðum spáð 0,54% hækkun milli mánaða og 9,6% ársverðbólgu. Það sem helst kom á óvart í maí var að reiknuð húsaleiga hækkaði minna en við gerðum ráð fyrir, en bæði hækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis minna og framlag vaxtabreytinga var minna en við höfðum spáð.
Spáum 0,87% hækkun milli mánaða
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,87% milli mánaða í júní. Matarkarfan, reiknuð húsaleiga og flugfargjöld til útlanda munu samkvæmt okkar spá hafa mest áhrif til hækkunar. Þessir þrír liðir útskýra um 75% af hækkuninni milli mánaða. Við gerum óverulega breytingu frá síðustu spá sem við gáfum út í lok maí. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 9,5% í 8,9%.
Vísitalan hækkaði um 1,41% milli mánaða í júní í fyrra. Lækkunin sem við spáum á ársverðbólgunni í júní skýrist ekki síst af því að vísitalan hækkaði mikið í júní í fyrra og sú tala dettur út úr ársverðbólgunni þegar júnítalan verður birt. Liðirnir reiknuð húsaleiga og bensín hækkuðu mun meira í júní í fyrra en við teljum að þeir geri í ár. Aftur á móti spáum við því að flugfargjöld til útlanda hækki meira nú en í júní í fyrra, enda vanmat Hagstofan flugfargjöld í júnítölunni í fyrra. Án þess vanmats hefðu flugfargjöld til útlanda hagað sér svipað í júní í fyrra og við spáum að þau geri í júní í ár. Villan í tölunni í fyrra hafði þónokkur áhrif á ársverðbólgutöluna og við teljum að án hennar myndi spá okkar fyrir júní á þessu ári hljóða upp á 8,6% í stað 8,9%.
Verð á mat- og drykkjarvörum hækkar
Samkvæmt verðathugun okkar á matvöru í júní hefur verð á flestum liðum matarkörfunnar hækkað lítillega milli mánaða. Við spáum 0,8% hækkun á matarkörfunni og að áhrif á heildarvísitöluna verði 0,12 prósentustig til hækkunar. Gangi spáin eftir verður hækkunin sú sama og í síðasta mánuði.
Bensín lækkar og flugfargjöld hækka í júní
Verðkönnun okkar bendir til þess að verð á bensíni og díselolíu lækki um 0,12% milli mánaða í júní. Ef spáin gengur eftir verður júní fimmti mánuðurinn í röð þar sem bensínverð lækkar milli mánaða og verður bensínverð 4,8% lægra í júní en það var í janúar. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað nokkuð. Brent er núna í um 74 USD/fatið, en var 82,5 USD/fatið um áramót auk þess sem krónan hefur styrkst á móti Bandaríkjadal síðan um áramótin.
Það sem af er ári hafa flugmiðar til útlanda verið rúmlega 20% dýrari en á sama tíma í fyrra, enda eftirspurn eftir flugi nokkuð meiri, sem sést m.a. á góðri sætanýtingu flugfélaganna. Við gerum ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram og að flugfargjöld til útlanda verði hærri í sumar en í fyrra. Þau lækkuðu um 7% milli mánaða í maí, enda lækka þau gjarnan milli apríl og maí áður en þau hækka aftur í júní. Við gerum ráð fyrir að flugfargjöld hækki um 15,6% milli mánaða í júní. Við gerum svo ráð fyrir því að þau hækki aftur í júlí þegar eftirspurnin er sem mest en lækki í ágúst og september þegar eftirspurnin fer að dragast saman.
Spáum því að reiknuð húsaleiga hækki
Í síðasta mánuði hækkaði kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði um 1,3%, þar sem hlutur íbúðaverðs var 0,6 prósentustig og hlutur vaxtahækkana 0,7 prósentustig. Síðustu þrjá mánuði hefur íbúðaverð hækkað, en þrjá mánuði þar á undan lækkaði íbúðaverð á milli mánaða. Árstakturinn hefur þó lækkað jafnt og þétt frá því í júlí og ágúst í fyrra, þegar árshækkun íbúðaverðs var 24,2%. Árshækkun íbúðaverðs í síðasta mánuði var 10,2%. Áhrif kostnaðar vegna búsetu í eigin húsnæði var 14,5% í síðasta mánuði og hefur ekki dregist saman jafn hratt og lækkun íbúðaverðs vegna þess að vextir hafa hækkað á sama tíma. Það er þó líklegt að hækkandi húsnæðisverðs hefði haft töluvert meiri áhrif ef vextir hefðu ekki hækkað. Við spáum því að reiknuð húsaleiga hækki um 1,1% á milli mánuða í júní og að áhrif íbúðaverðs verði 0,4% og áhrif vaxtahækkana 0,7%. Áhrifin á heildarvísitöluna verða þá 0,21 prósentustig til hækkunar.
Spá um júnímælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 14,9% | 0,8% | 0,12% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 0,4% | 0,01% |
Föt og skór | 3,9% | 0,4% | 0,01% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,6% | 0,4% | 0,04% |
- Reiknuð húsaleiga | 19,0% | 1,1% | 0,21% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 6,5% | 0,6% | 0,04% |
Heilsa | 3,7% | 0,3% | 0,01% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,8% | 0,7% | 0,02% |
- Kaup ökutækja | 6,2% | 0,3% | 0,02% |
- Bensín og díselolía | 2,9% | -0,1% | 0,00% |
- Flugfargjöld til útlanda | 2,0% | 15,6% | 0,31% |
Póstur og sími | 1,7% | -0,6% | -0,01% |
Tómstundir og menning | 9,8% | 0,0% | 0,00% |
Menntun | 1,0% | 1,1% | 0,01% |
Hótel og veitingastaðir | 5,2% | 1,1% | 0,06% |
Aðrar vörur og þjónusta | 7,2% | 0,4% | 0,03% |
Alls | 100,0% | 0,87% |
Teljum að verðbólga haldist rétt yfir 8% næstu mánuði
Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,36% milli mánaða í júlí, 0,40% í ágúst og 0,12% í september. Gangi spáin eftir mun verðbólga hjaðna niður í 8,0% í júlí, aukast lítillega aftur í 8,1% í ágúst og í 8,2% í september. Í júní og júlí í fyrra hækkaði vísitalan töluvert mikið á milli mánaða og þess vegna spáum við því að ársverbólgan lækki í júní og júlí þrátt fyrir að vísitalan hækki. Vísitalan hækkaði mun minna á milli mánaða í ágúst og september í fyrra og því spáum við því að ársverðbólgan aukist lítillega í ágúst og september í ár, þótt verðbólguþrýstingurinn verði ekki meiri en í júní og júlí. Þessi nýjasta spá er mjög svipuð þeirri síðustu, sem við gáfum út í maí.