Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,8% milli nóvember og desember sem er mesta hækkun sem hefur sést síðan í apríl í fyrra þegar verð hækkaði um 2,7% milli mánaða. Verðþróunin síðustu mánuði hafði gefið tilefni til að ætla að markaður væri farinn að róast, en nýjustu gögn benda til þess að svo sé ekki. Fjölbýli hækkaði um 1,8% milli mánaða og sérbýli 2,0%.
Þegar árið í heild er skoðað sést að íbúðaverð hækkaði um 14,3% milli ára í fyrra sem er mesta hækkun sem hefur sést síðan 2017 og talsvert ofar meðaltalinu frá aldamótum sem er 8,9%. Aðeins þrisvar hefur íbúðaverð hækkað meira á þessari öld: árið 2000, 2005 og 2017. Við spáðum því í október að íbúðaverð myndi hækka um 14% milli ára og er hækkunin fyrir árið í heild því í takt við væntingar þó nýjasta mælingin komi ögn á óvart miðað við þróunina síðustu mánuði.
Athygli vekur að á sama tíma og mikil spenna hefur ríkt á fasteignamarkaði og verðhækkanir verið miklar hefur hlutfall fyrstu kaupenda aldrei mælst hærra. 33% af viðskiptum í fyrra voru tilfelli þar sem einstaklingur var að kaupa sína fyrstu íbúð, ýmist einn eða með öðrum. Fyrstu kaupendur voru 4.388 talsins og hafa ekki verið fleiri frá upphafi gagnasöfnunar hjá Þjóðskrá.