Leiga hækkar á milli mánaða í apríl
Eftir að leiguverð hafði nánast staðið í stað frá því að faraldurinn hófst virðist vera komið dálítið skrið á verðþróunina, a.m.k. til skamms tíma. Tólf mánaða hækkun leiguverðs mælist nú tæp 8% en til samanburðar mælist sambærileg hækkun á vísitölu neysluverðs (VNV) án húsnæðis 5,3%. Leiga hefur því hækkað umfram verðlag annarra vara, en þó ekki jafn mikið og kaupverð íbúða. 12 mánaða hækkun á verði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu mælist nú 21,5%. Munurinn á þróun leigu- og kaupverðs íbúða hefur aldrei mælst jafn mikill og nú.
Hagfræðideild Landsbankans spáir því að komið sé að nokkurs konar þolmörkum og nú megi vænta hóflegri verðhækkana á íbúðamarkaði. Spenna gæti síðan aftur á móti aukist á leigumarkaði með auknum aðflutningi til landsins.