Heimilin taka bílalán sem aldrei fyrr
Samkvæmt tölum á vef Samgöngustofu hafa alls um 9.600 bifreiðar verið nýskráðar á fyrstu fimm mánuðum ársins sem er um 65% aukning frá fyrra ári, miðað við sama tímabil . Ef fyrstu fimm mánuðir ársins eru bornir saman við sömu mánuði árið 2017, þegar fjöldi nýskráðra bíla náði hámarki sjáum við að 31% færri bílar eru nú nýskráðir.
Ef skoðuð er sala nýrra fólksbíla, samkvæmt Bílgreinasambandinu, eykst sala um 63% milli ára sem er í góðu samræmi við tölur Samgöngustofu. Alls hafa selst 6.844 nýir fólksbílar fyrstu fimm mánuði ársins, en á sama tímabili í fyrra seldust 4.208 nýir bílar.
Nýjar lánveitingar til íslenskra heimila vegna bílakaupa, umfram uppgreiðslur, námu 25,4 ma.kr. á síðustu 12 mánuðum. Heildarupphæð bílalána í mars síðastliðnum sló met og hefur ekki verið hærri frá því Seðlabankinn tók að mæla ný útlán árið 2013. Sem dæmi er lántaka fyrstu fjögurra mánaða ársins rúmlega 20% meiri en allt árið 2013, á föstu verðlagi. Lánveitingar á fyrstu fjórum mánuðum ársins, á föstu verðlagi, námu 8,9 milljörðum króna og jukust um 93% frá sama tímabili árið 2018 en 226% frá 2019. 12 mánaða hlaupandi meðaltal mánaðarlegra gagna um hrein ný bílalán til heimilanna jókst nú í apríl um 110% milli ára og hækkunin frá ársbyrjun 2020 slagar í 150%.